Grænir fingur á heilsuleikskólanum Háaleiti

Börnin á Heilsuleikskólanum Háaleiti hafa verið dugleg núna í vor og byrjun sumars að gróðursetja. Þeim til aðstoðar er Björk, fagstjóri í listsköpun, en segja má að hún sé aðal „garðálfurinn“ þeirra.

Í bakgarðinum hafa börnin sett niður kartöflur, gulrætur, jarðarber, salat og ýmsar kryddjurtir.  Gaman verður þegar þetta verður tekið upp og afraksturinn borðaður eftir sumarfrí.

Eins hafa þau sett niður aspir , reyni- og birkitré auk berjarunna á framanverðri lóðinni. Krakkarnir hafa tekið fullan þátt í gróðursetningunni, m.a. grafið holur, sett skít og svo mold þegar trjánum hefur verið komið fyrir. 

Krakkarnir hugsa mjög vel um plönturnar ásamt Björk, passa upp á að vökva þegar ekki rignir og hjálpa henni að setja niður staura til að festa trén svo þau fari ekki illa í rokinu.

Einnig settu þau niður og hugsuðu um salat og spínat sem þau fengu svo að taka með heim.

Allir eru sammála um að þessi vinna hafi verið skemmtileg og gefandi í alla staði, bæði fyrir börn og starfsfólk.  Hún undirstrikar einnig mikilvægi þess að rækta garðinn sinn, hugsa vel um náttúruna og njóta hollustunnar í fersku grænmeti og ávöxtum.