Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar sat í gær sinn 200. fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og fékk af því tilefni afhentan blómvönd frá stjórninni. Það var Magnea Guðmundsdóttir annar varaforseti bæjarstjórnar sem afhenti Guðbrandi blómin og rakti feril hans í stuttu máli.

Guðbrandur sat sinn fyrsta fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 5. júní 2001, sem fulltrúi Alþýðuflokksins. Hann var aðalmaður í bæjarstjórn á átta ára tímabili, frá 2002 til 2010 og svo aftur frá 2014 þegar hann kom inn sem fulltrúi Beinnar leiðar. Guðbrandur er eini bæjarfulltrúinn sem hefur átt afturkvæmt í bæjarstjórn eftir fjarveru eitt kjörtímabil, 2010 til 2014.

Guðbrandur er hér með kominn í hóp þeirra bæjarfulltrúa sem hafa setið 200 fundi eða fleiri. Hinir eru Sveindís Valdimarsdóttir, Jóhann Geirdal, Ólafur Thordersen, Árni Sigfússon, Þorsteinn Erlingsson, Björk Guðjónsdóttir og Böðvar Jónsson, sem á metið í fundarsetu í bæjarstjórn, rúmlega 400 fundi.

Böðvar Jónsson hefur verið ötull við að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar úr bæjarpólitíkinni sem Guðbrandur þakkaði.