Gunnar Helgason gestur á uppskeruhátíð sumarlesturs

Gunnar Helgason rithöfundur og leikari verður gestur uppskeruhátíðar sumarlesturs Bókasafns Reykjanesbæjar sem fram fer í safninu í dag kl. 17:00. Metþátttaka var í sumarlestrinum í ár og því verður fagnað.

Bókasafn Reykjanesbæjar bauð upp á sumarlestursbingó í ár sem sló rækilega í gegn. Alls 363 börn skráðu sig til þátttöku og fylltu hvert bingóspjaldið á fætur öðru með skemmtilegum lestrarupplifunum. Aldrei fleiri börn hafa tekið þátt í sumarlestri.

Til að fagna árangri og ljúka sumarlestri formlega er haldin uppskeruhátíð. Gunnar Helgason sem sendir von bráðar frá sér nýja bók, Mamma klikk, kemur í heimsókn á eftir og les upp úr bókinni. 

Þátttakendur sumarlesturs eru sérstaklega boðnir velkomnir en allir verða leystir út með þátttökuviðurkenningu.