- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Háaleitisskóli í Reykjanesbæ hefur hlotið Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2025 fyrir að hafa tekist að skapa einstakan fjölmenningarskóla sem getur orðið öðrum fyrirmynd.
Í Háaleitisskóla eru um 370 nemendur og sjö af hverjum tíu þeirra eru af erlendum uppruna. Í skólanum eru töluð um 30 tungumál og hefur tekist að byggja upp einstaklega jákvæða skólamenningu þar sem fjölmenning er skilgreind sem styrkur.
Eitt af því sem einkennt hefur starfið er hvernig félagslíf nemenda hefur verið fléttað inn í daglegt skólastarf. Félagsmiðstöðin í skólanum er opin í frímínútum og hádeginu og stuðlar að virkri þátttöku nemenda og jákvæðum samskiptum. Þá má nefna svokallað vellíðunarver, þar sem nemendur sem þess þurfa fá tímabundinn stuðning.
Í skólanum hefur verið starfandi námsúrræðið Friðheimar fyrir nemendur í leit að alþjóðlegri vernd. Þar læra þeir íslensku í um þrjá mánuði áður en þeir hefja almennt nám í skólanum. Samhliða íslenskunáminu taka þeir þátt í kennslu í list- og verkgreinum, upplýsingatækni og íþróttum með bekknum sínum til að stuðla að félagslegri aðlögun frá upphafi.
Háaleitisskóli leggur jafnframt áherslu á stuðning við nemendur og foreldra. Sérstakur nemendaráðgjafi starfar við skólann og veitir ráðgjöf og aðstoð þegar nemendur glíma við tilfinningalega eða félagslega erfiðleika. Þá hefur verið lögð sérstök rækt við foreldrasamstarf, meðal annars með reglulegum námskeiðum sem kynna íslenskt skólakerfi og menningu, styrkja tengsl foreldra og efla samheldni í skólasamfélaginu.
Skólinn er réttindaskóli UNICEF og tekur þátt í verkefninu Sjötta hvert barn, sem vekur athygli á stöðu barna sem búa við afleiðingar stríðs og átaka. Nemendur taka þátt í stórri myndlistasýningu sem opnuð á Alþjóðadegi barna 20. nóvember og verður meðal stærstu myndverkasýninga sem settar hafa verið upp hér á landi.
Skólastjóri Háaleitisskóla er Unnar Stefán Sigurðsson og aðstoðarskólastjóri er Jurgita Milleriene.
Viðurkenningarráð Íslensku menntaverðlaunanna metur að fjölmenningarlegt og metnaðarfullt starf Háaleitisskóla sé til fyrirmyndar og því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna ársins 2025.
Hægt er að lesa meira um skólann og starfsemina í frétt frá Víkurfréttum hér


Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)