Hæfileikaríkir krakkar á Öskudag

Fyrsta hæfileikakeppnin en ekki sú síðasta

Fyrsta hæfileikakeppnin, og örugglega ekki sú síðasta, þar sem krakkar stigu á stokk og fluttu öskudagsatriðið sitt fór fram í Fjörheimum í gær undir yfirskriftinni Öskudagur „Got Talent.“ Margir krakkar eyða miklu púðri í öskudagsatriðin sín og hugmyndin með keppninni var að skapa vettvang fyrir þá til að sýna öðrum atriðin sín og vera um leið hvatning fyrir fleiri til að undirbúa skemmtileg og flott atriði.

200 - 300 börn í Fjörheimum

Í raun var rennt blint í sjóinn því skráning var á staðnum og ekki vitað hve von var á mörgum atriðum eða hvernig til tækist. Það var því virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel krakkarnir tóku við sér en á bilinu 2-300 krakkar litu við í Fjörheimum. 32 atriði tóku þátt í hæfileikakeppninni og yfir 40 hópar tóku þátt í búningakeppninni. Dómararnir áttu úr vöndu að velja en komust að lokum að niðurstöðu.

Og sigurvegararnir eru....

Verðlaun fyrir atriði úr 1. – 4. bekk hljóta þær Berglaug Aþena, Hekla, Katla og Unnur Ísold sem fluttu nýja Júróvisjón lagið Lítil skref og sýndu frábæra takta í söng og dansi en þær koma úr 3. bekk í Njarðvíkurskóla.

Sigurvegarar úr 5. – 10. bekk eru þær Hafdís Eva Pálsdóttir og Gyða Dröfn Davíðsdóttir úr 5. bekk Myllubakkaskóla en þær voru með mjög frumlegt og skemmtilegt atriði og sungu hvor til annarar sem rokkari og rappari.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir flottasta búninginn sem var heimatilbúinn Minion búningur. Nafn verðlaunahafans misritaðist og er hér með lýst eftir nafninu á honum.

Verðlaunaafhending fyrir þessa fyrstu Öskudagur „Got Talent“ keppni fer fram á Bókasafni Reykjanesbæjar á föstudag kl. 15.00 og eru allir velkomnir að fylgjast með því.

Ár til að undirbúa næsta atriði

Við óskum sigurvegurunum til hamingju og hvetjum krakkana til að byrja að huga að næsta atriði.