Hæfingarstöðin opnuð í nýju húsnæði

Starfsemi Hæfingarstöðvarinnar hefur verið flutt að Keilisbraut 755 Ásbrú. Húsnæðið er mikil bylting fyrir notendur og starfsfólk, enda stórt og rúmgott. Í tilefni tímamótanna verður opið hús föstudaginn 22. maí milli kl. 14:00 og 15:00 þar sem áhugasömum gefst kostur á að kynna sér starfsemina.

Fanney St. Sigurðardóttir forstöðuþroskaþjálfi Hæfingarstöðvarinnar sagði einn af ótvíræðum kostum stærra húsnæðis vera fleiri einstaklings- og þjálfunarherbergi sem bjóði upp á fleiri möguleika í starfi. „Nú er starfsemin að komast á fullt skrið eftir flutningana og við fengum nýverið verkefni frá Icelandair sem við erum að vinna að núna.“ Fanney sagði Hæfingarstöðina alltaf tilbúna til að skoða ný verkefni sem biðust og að stöðin hafi tekið að sér alls kyns verkefni fyrir fyrirtæki í gegnum tíðna, t.d. pökkunarverkefni. Tilvalið er að kynna sér verkefnin á opna húsinu.

Opna húsið á föstudaginn hefur yfirskriftina „Dagur góðra verka“, þar sem Hæfingarstöðin er sambandsaðili innan Hlutverks, samtaka vinnu og verkþjálfunar. Slagorð þess er Vinna – virðing – vellíðan.