Hagkvæmar og endurnýtanlegar skólastofur

Einingarnar við Myllubakkaskóla bæta tveimur kennslustofum við og viðbótarrými sem hægt er að nýta …
Einingarnar við Myllubakkaskóla bæta tveimur kennslustofum við og viðbótarrými sem hægt er að nýta á ýmsa vegu.

Tvær tveggja og hálfs stofu einingar voru nýverið keyptar til þess að bæta við skólarými í þremur skólum Reykjanesbæjar, Myllubakkaskóla, Stapaskóla og leikskólanum Hjallatúni. Þá eru endurbætur í skólum í fullum gangi, m.a. til að skapa aukið eða betra rými.

Tvær og hálfa einingu er nú verið að setja niður við Myllubakkaskóla, sem rúmar tvær skólastofur og minna herbergi til sérkennslu eða annarra nota. Ein og hálf eining er við Stapaskóla, sem rúmar eina kennslustofu og viðbótarrými og ein eining er við Hjallatún. Þar með verður bið á stækkun Hjallatúns, en hugmyndir hafa verið uppi um að spegla núverandi húsnæði og stækka um helming. Þá er verið að endurnýja með öllu starfsmannaaðstöðuna í Holtaskóla og klæða hluta af austurhlið Njarðvíkurskóla ásamt því að skipta um glugga. Í Akurskóla hefur stigi verið minnkaður sem eykur rými á báðum hæðum fyrir nemendur og starfsfólk.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs segir einingarnar valdar með það í huga að þær eru vel færanlegar og aðgengilegar. Þær sé því hægt að færa til eftir þörfum. „Þessar einingar eru því bæði hagkvæmar fjárhagslega og tímalega séð. Ég geri ráð fyrir því að breytingar verði á skólaumhverfinu þegar fyrsti áfangi Stapaskóla verður tekinn í notkun haustið 2020, sem er grunnskólahlutinn, rúmlega 7000 fm². Þá ætti dreifingin í skólana að jafnast að einhverju marki. Þá er núverandi skólahúsnæði Stapaskóla úr samskonar færanlegum einingum og munu því nýtast annarsstaðar þegar fyrsti áfanginn verður tekinn í notkun.“

Hér má sjá framkvæmdir við minnkun stiga í Akurskóla

Ein stofueining er nú komin við leikskólann Hjallatún

Nýju einingarnar við Stapaskóla eru samskonar og bráðabirgðarhúsnæðið er gert úr