Halldóra G. Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra Menningar- og þjónustusviðs Reykjanesbæjar. Starfið var auglýst undir lok árs 2025 og bárust alls 29 umsóknir en tveir drógu umsókn sína til baka.
Halldóra hefur gegnt starfi sviðsstjóra Menningar- og þjónustusviðs í afleysingum síðastliðið eitt og hálft ár samhliða starfi sínu sem aðstoðarmaður bæjarstjóra sem hún hefur sinnt frá árinu 2019. Ráðningin var tekin fyrir í bæjarráði 18. desember sl. og staðfest af bæjarstjórn þann 6. janúar.
Halldóra er með grunnnám í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún býr yfir 20 ára reynslu af verkefnastjórnun og hefur starfað við markaðsmál, stefnumótun og gæða- og verkefnastjórnun áður en hún hóf störf hjá Reykjanesbæ.
Í störfum sínum hjá sveitarfélaginu hefur Halldóra öðlast víðtæka þekkingu á starfsemi sveitarfélagsins, stjórnsýslu, stefnumótun og rekstri, auk þess sem reynsla hennar úr fyrri störfum nýtist vel í þeim málaflokkum sem falla undir Menningar- og þjónustusvið.
“Ég er þakklát fyrir traustið og hlakka mikið til áframhaldandi samstarfs við það öfluga og góða fólk sem starfar á Menningar- og þjónustusviði og að vinna áfram að þeim fjölbreyttu og áhugaverðu málaflokkum sem undir sviðið heyra,” sagði Halldóra um ráðninguna.