Heiðarskóli sigraði í Skólahreysti 2018

Sigurreifir keppendur úr Heiðarskóla þau Ástrós Elísa, Bartosz, Eyþór og Ingibjörg Birta ásamt vara…
Sigurreifir keppendur úr Heiðarskóla þau Ástrós Elísa, Bartosz, Eyþór og Ingibjörg Birta ásamt varamönnunum Andra Sævari Arnarsyni, Hildi Björgu Hafþórsdóttur og Jónu Kristínu Einarsdóttur. Ljósmynd: Skjáskot af vef Rúv.

Lið Heiðarskóla vann frækinn sigur í Skólahreysti 2018. Keppnin fór fram í Laugardalshöll í gær. Þetta er þriðji sigur Heiðarskóla í Skólahreysti. Liðið er skipað Ástrósu Elísu Eyþórsdóttur,  Bartosz Wiktorowicz, Eyþóri Jónssyni og Ingibjörgu Birtu Jóhannsdóttur.

Lið Heiðarskóla kom inn í úrslitakeppnina sem annað af tveimur stigahæstu liðunum í 2. sæti í sínum riðli í undanúrslitunum. Riðillinn sem Heiðarskóli keppti í var gífurlega sterkur, að sögn Helenu Óskar Jónsdóttur þjálfara. „Árangur skólans í riðlinum er því  mjög góður þegar horft er á liðin sem voru síðan í úrslitum.“

Keppendurnir voru allan tíma alveg vissir um að þeir myndu komast í úrslitin þegar beðið var niðurstöðu , segir Helena þjálfari. Þau hafi haft miklar trú á sjálfum sér en jafnframt lagt mikið á sig til að ná þetta langt. „Eftir að við vissum að við kæmumst þangað þá voru þau strax komin með það markmið að vinna úrslitin. Þau voru ákveðin í því að bæta sig og gera betur en í undanúrslitunum. Þá var byrjað að plana aukaæfingar. Þau mættu á sunnudagskvöldum í íþróttasalinn í Heiðarskóla, þau mættu á frídögum eins og í páskafríinu og á Sumardaginn fyrsta. Þau settu sér sjálf markmið hvað þau þurftu að gera til að æfa sig og bæta, í gegnum íþróttina sína eða innan veggja heimilisins.“

Auk viðbótaræfinga skoraði Helena á þau að fara í nammibindindi mánuð fyrir úrslitin sem þau tóku. Helena segir þau hafa staðið sig eins og hetjur. „Allt sem ég setti þeim fyrir gerðu þau það 100% og oft meira til.“

Skólarnir tólf sem öttu kappi í úrslitunum í gær voru Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskólinn á Suðureyri og Súðavík, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Varmárskóli, Lindaskóli, Varmahlíðarskóli, Holtaskóli, Heiðarskóli, Ölduselsskóli, Laugalækjarskóli, Grunnskólinn Hellu og Brekkuskóli.