Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ - Þakkir

Sund er ekki bara góð íþrótt, heldur einnig góð forvörn
Sund er ekki bara góð íþrótt, heldur einnig góð forvörn

 Vikuna 3. – 9. október var haldin í fjórða sinn sameiginlega Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ. Allar stofnanir Reykjanesbæjar auk fjölmargra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka tóku þátt í verkefninu með okkur. 

Segja má að Geðræktarganga Bjargarinnar hafi  lagt  tóninn fyrir heilsu -og forvarnarvikuna með heilsuræktargöngunni og geðorðunum 10. í upphaf vikunnar. Áhersla var lögð á hollan og góðan mat venju fremur og sáu Skólamatur og Menu-veitingar um að laða fram lokkandi heilsurétti.  Fyrirlestrar, blóðþrýstings- og aðrar heilsumælingar voru í boði, ýmis tilboð í fyrirtækjum á heilsuvörum, Lífsstíll bauð í líkamsrækt, Íþróttahúsið að Ásbrú bauð í skvass, HSS var með vel heppnaðan fyrirlestur um streitu og streitulosun ásamt mælingum við Nettó, ganga á Þorbjörn í boði Isavia og Fríhafnarinnar, Nesvellir og leikskólarnir í Reykjanesbæ buðu uppá fjölbreytta dagskrá og Bókasafn Reykjanesbæjar bauð bæjarbúum  uppá óvænta bókaglaðninga.

Í samstarfi við Brunavarnir Suðurnesja, FS, Lögregluna á Suðurnesjum, TM og Reykjanesbæ var Forvarnardagur ungra ökumanna haldinn í 88-húsinu og tóku um 125  nemendur í FS þátt í honum.

Fjöldaskokk, fyrirlestrar, kirkjustarf, vettvangsferðir og margt, margt  fleira var í boði í heilsu-og forvarnarvikunni, miklu meira en hægt er að telja upp hér.  Með sameiginlegu framlagi þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í heilsu-og forvarnarvikunni  með einum eða öðrum hætti göngum við veginn fram á við til betri heilsu. Það er ávallt mikilvægt að huga að heilsu og forvörnum, en  ekki hvað síst á það við á  þeim erfiðu tímum sem við búum við núna. Er það von okkar að heilsu-og forvarnarvikan verði hvatning fyrir bæjarbúa til að halda áfram að  hlúa að velferð sinni, fjölskyldu sinnar og nærumhverfis.  Það skiptir máli að við hlúum vel hvort að öðru.

Við þökkum ykkur öllum þátttökuna og hlökkum til að vinna með ykkur á næstu árum.

 

Guðrún Þorsteinsdóttir

Starfsþróunarstjóri Reykjanesbæjar

Hera Ósk Einarsdóttir

Félagsráðgjafi Reykjanesbæ