Heilsueflandi leikskólar í heilsueflandi samfélagi

Leikskólabörn á Tjarnarseli eru dugleg að fara í vettvangsferðir. Ferð að útsýnispallinum, sem þau …
Leikskólabörn á Tjarnarseli eru dugleg að fara í vettvangsferðir. Ferð að útsýnispallinum, sem þau áttu einmitt hugmyndina að, er reglulega farin. Hér eru þau við vígslu söguskiltis um tilurð útsýnispallsins og tröllasystkinanna Steins og Sleggju.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust á dögunum að leikskólarnir Garðasel, Tjarnarsel, Skógarás og Vesturberg fengu styrki úr Lýðheilsusjóði Embættis landlæknis, alls að upphæð um 800.000 kr. Markmið Lýðheilsusjóðs er að styrkja lýðheilsustarf bæði innan og utan embættisins. Styrkirnir koma til að nýtast leikskólunum vel til að vinna að lýðheilsu barna og starfsmanna.

Að sögn Ingibjargar Bryndísar leikskólafulltrúa taka átta leikskólar af tíu í bæjarfélaginu þátt í verkefni á vegum Embættis landlæknis sem ber heitið Heilsueflandi leikskóli. Athygli hefur vakið hversu góð þátttaka er í verkefninu á meðal leikskólanna í Reykjanesbæ,  meðal annars hjá landlækni. Leikskólar Reykjanesbæjar hafa haft það að leiðarljósi að lengi býr að fyrstu gerð. Í ljósi þess er ákaflega mikilvægt að leggja snemma inn að góð andleg og líkamleg heilsa er dýrmæt og vinna með leiðir sem stuðla að góðri lýðheilsu,“ segir Ingibjörg Bryndís.