Heilsuefling í leikskólum Reykjanesbæjar

Útivera er dæmi um heilsueflingu sem leikskólabörn í Reykjanesbæ iðka af miklum móð.
Útivera er dæmi um heilsueflingu sem leikskólabörn í Reykjanesbæ iðka af miklum móð.

Sex leikskólar í Reykjanesbæ hafa gerst þátttakendur í verkefninu Heilsueflandi leikskólar á vegum Embættis landlæknis. Verkefninu er ætlað að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu námi í leikskólanum.

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð einn af grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Verkefnið Heilsueflandi leikskólar mun því nýtast leikskólunum vel sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð. 

Í verkefninu er unnið með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Gert er ráð fyrir að Heilsueflandi leikskólar setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf ásamt tímasettri aðgerðaáætlun og að í skólanámskrám sé tekið mið af stefnunni.

Leikskólarnir í Reykjanesbæ sem taka þátt eru Gimli, Háaleiti, Heiðarsel, Holt, Tjarnarsel og Vesturberg. Að sögn Ingibjargar Bryndísar Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa Reykjanesbæjar er mikil ánægja með verkefnið meðal leikskólanna sem taka þátt. Hjá Embætti landlæknis hefur góð þátttaka leikskólanna í Reykjanesbæ vakið athygli. Foreldrum er bent á að upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðum viðkomandi leikskóla.

Með því að smella á tengilinn opnast síða um leikskóla Reykjanesbæjar.