Ný sýning um Heimi Stígsson ljósmyndara opnuð

Mynd af ljósmyndaranum eftir Runólf.
Mynd af ljósmyndaranum eftir Runólf.

Fimmtudaginn 17. október kl. 17:30 verður ný sýning um Heimi Stígsson, ljósmyndara opnuð í Bíósal Duushúsa á fæðingardegi Heimis sem þá hefði orðið áttræður.

Heimir Stígsson (17.10.1933 – 12.08.2009) rak ljósmyndastofu í Keflavík frá 1961 og fram undir aldamótin síðustu. Eftir hann liggur mikið magn mynda af margvíslegum toga, bæði teknar á stofunni og bæjarlífsmyndir. Safn hans er í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar og er það mikilvægur heimildabanki um sögu og menningu svæðisins á ofanveðri 20. öld.

Ljósmyndararnir Oddgeir Karlsson og Sólveig Þórðardóttir völdu myndir úr safni Heimis til sýningar með áherslu á sjöunda áratuginn og upphaf þess áttunda.

Af sama tilefni verður vefgátt að myndasafni Byggðasafnsins opnuð almenningi. Við opnunina verður einnig tekið við veglegri gjöf sem safninu hefur borist.

Opnunin stendur öllum opin og eru áhugasamir hvattir til að mæta. Sýningin stendur til 22. desember og er opin virka daga frá kl. 12-17 og um helgar frá kl. 13-17 og aðgangur er ókeypis.