Heimsókn frá Litháen

Miðvikudaginn 27. apríl, fengum við góða gesti í heimsókn frá menntamálaráðuneytinu í Litháen. Það voru þau Prof. dr. Ramūnas Skaudžius aðstoðarráðherra, Ignas Gaižiūnas ráðgjafi ráðherra og Kristina Valantinienė sérfræðingur ráðuneytisins.

Þau voru meðal annars að kynna sér hvernig við á Íslandi högum menntun fyrir alla og komum til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda okkar. Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs kynnti fyrir þeim nýja menntastefnu Reykjanesbæjar sem þau lýstu yfir mikilli hrifningu með og síðan sagði Gróa Axelsdóttir skólastjóri þeim frá hugmyndafræði Stapaskóla, hönnun skólabyggingarinnar og hvernig hún styður við fjölbreytta kennsluhætti og sveigjanlegar námsaðferðir.

Að lokum fóru þau í sýnisferð um skólann og fengu að sjá með eigin augum hvernig nám í framúrstefnulegum Stapaskóla fer fram. Það er alltaf gaman og gagnlegt að taka á móti góðum gestum, ekki síst frá öðrum löndum. Það eykur víðsýni og þekkingu og styrkir okkur jafnframt í því sem við erum að gera í menntamálum.