Hleyptu púkanum í þér út! Þrumandi þrettándagleði í Reykjanesbæ

Frá þrettándagleði í Reykjanesbæ.
Frá þrettándagleði í Reykjanesbæ.

Jafnvel þótt við vitum að veröldin sé auðvitað full af púkum, tröllum og kynjaverum af ýmsu tagi fara nú flestir ósköp vel með það frá degi til dags. Einn er þó sá dagur þar sem fólk getur óhikað hleypt púkanum í sér út og það er auðvitað á þrettándanum. Eru því allir laumupúkar hvattir til að sleppa fram af sér beislinu og fjölmenna á stræti út og sýna sitt rétta púkaandlit í árlegri þrettándagleði í Reykjanesbæ n.k. laugardag.

Blysför að hátíðarsvæði og börn í búningum

Klukkan 17:00 verður gengið í fylgd álfakóngs og drottningar og hirðar þeirra frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði við Hafnargötu 8. Eins og flestum er kunnugt vita börn fátt skemmtilegra en að klæða sig upp í búninga. Eru foreldrar því hvattir til að leyfa börnunum að taka virkan þátt í gleðinni með því að klæða sig upp í ýmis gervi, jafnvel púkagervi og ekki væri verra ef þau hefðu heimagerðar luktir meðferðis í blysförina. Á hátíðarsvæðinu verður það sjálf Grýla gamla sem tekur á móti hersingunni, álfar munu hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu.

Brenna, kakó og piparkökur

Þrettándabrennan verður á sínum stað á Bakkalág og gestum verður boðið upp á heitt kakó og piparkökur til að ylja sér.

Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Suðurnes

Jólin verða svo kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu eins og þeim er einum lagið.

 Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Júdódeild UMFN, Björgunarsveitin Suðurnes og Jólahljómsveit og Trommusveit Tónlistarskólans taka þátt í dagskránni.

Bílastæði eru við Ægisgötu og Ráðhús, Tjarnargötu 12.