Hreystivöllur settur upp í Reykjanesbæ - Svar við miklum áhuga meðal grunnskólanema

Verðlaunahafar í Skólahreysti
Verðlaunahafar í Skólahreysti

Reykjanesbær hefur fest kaup á hreystivelli frá Icefitness sem settur verður upp á gamla malarvellinum við Vatnaveröld en þar er unnið að því að setja upp fjölbreyttan leikjagarð sem m.a. byggir á tillögum grunnskólabarna á íbúafundum með bæjarstjóra sl. haust.

Mikill áhugi er nú meðal grunnskólanemenda á hreystivöllum í kjölfar skólahreysti en í dag fer einmitt fram undankeppni þar sem nemendur úr grunnskólum Reykjanesbæjar taka þátt. Ekki má gleyma því að Heiðarskóli bar sigur úr býtum í Skólahreysti á síðasta ári.

Hreystivöllurinn uppfyllir allar öryggiskröfur og er 30m langur og 12m breiður. Þar verður m.a. apastigi, upphýfingar, dýfur, rör og hreystigreip. Einnig má nefna kaðalturn og armbeygjupall.

Stefnt er að því að völlurinn og leikjagarðurinn verði tilbúinn fyrir barnahátíð sem haldin verður í Reykjanesbæ dagana 21. - 25. apríl n.k. en þá mun fara þar fram hreystikeppni fyrir unga sem aldna.

Mynd: Sigurvegarar skólahreysti 2009. Nemendur í Heiðarskóla: Guðni Már Grétarsson, María Ása Ástþórsdóttir, Soffía Klemenzdóttir og Eyþór Ingi Einarsson.