Hringtorgið við Grænás boðið út

Hér sést hvar hringtorgið mun koma.
Hér sést hvar hringtorgið mun koma.

Framkvæmdir við hringtorg við Grænás sem tengir byggðina á Ásbrú við Reykjanesbæ verða boðnar út eftir fjórar vikur. Undirgöng fyrir gangandi fólk verða gerð þar á næsta ári.

Þetta kom fram hjá Kristjáni Möller samgönguráðherra við umræður um samgönguáætlun á Alþingi í dag.

Gatnamótin við Reykjanesbraut og Grænásbrekku eru varasöm, sérstaklega með breyttu hlutverki svæðisins á Ásbrú þar sem nú búa námsmenn með fjölskyldur.

Mörg slys hafa orðið á þessum gatnamótum enda má segja að þjóðvegurinn klúfi byggðina í sundur en þar er umferð mikil í tengslum við utanlandsflug. Þetta skapar slysahættu fyrir börn og unglinga og aðra gangandi vegfarendur sem sækja ýmsa þjónustu s.s. íþróttir- og tómstundir fyrir neðan Reykjanesbraut.