Fjöldi viðstaddur opnun Bryggjuhúss og sumarsýninga

Úr Bryggjuhúsi.
Úr Bryggjuhúsi.

Fleiri hundruð voru viðstödd opnun Bryggjuhúss Duushúsa og sumarsýninga menningar- og listamiðstöðvar Reykjanesbæjar sl. fimmtudag. Mikil ánægja ríkti á meðal gesta þegar Bryggjuhúsið, sem var pakkhús reist árið 1877 af danska kaupmanninum Hans Peter Duus og er jafnframt verðmætasti, fallegasti og elsti hluti húsalengjunnar, var opnaður eftir áralanga endurgerð. Góður rómur var gerður að því hvernig til tókst en reynt var eftir megni að halda í innviði hússins og ummerki fortíðarinnar. Í húsalengjunni allri eru nú 8 sýningarsalir með fjölbreyttum sýningum. Sumar þeirra eru svokallaðar fastar sýningar en aðrar tímabundnar.

Í sumar er boðið upp á eftirtaldar sýningar: Bátafloti Gríms Karlssonar, Dæmisögur úr sumarlandinu – einkasýning Karolínu Lárusdóttur, Hönnun á Suðurnesjum – samstarfsverkefni með hönnunarklasanum Maris, ljósmyndasýningin Þrælkun, þroski, þrá frá Þjóðminjasafni Íslands, sýning á skúlptúrum Erlings Jónssonar, Þyrping verður að þorpi – sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar. Þess má geta að ókeypis aðgangur er í Duushús og þar er opið alla daga ársins.