Hvatningarverðlaun 2022

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2022 – Skólaslit. Fulltrúar verkefnisins ásamt Valgerði formanni fræ…
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2022 – Skólaslit. Fulltrúar verkefnisins ásamt Valgerði formanni fræðsluráðs.

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn þann 8. júní síðastliðinn. Alls bárust 20 ábendingar og voru verkefnin fjölbreytt að vanda.

Að þessu sinni hlaut verkefnið Skólaslit hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2022 en að því standa kennsluráðgjafarnir Kolfinna Njálsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir ásamt skólastjórum í grunnskólum Reykjanesbæjar og verkefnastjórum.

Þróunarverkefnið og lestrarupplifunin Skólaslit var styrkt af Sprotasjóði og stóð yfir allan októbermánuð 2021 í grunnskólum Reykjanesbæjar og var vel tekið af nemendum, foreldrum og kennurum hér sem og um allt land. Einnig tóku Fjörheimar félagsmiðstöð ríkan þátt í verkefninu ásamt Bókasafni Reykjanesbæjar og Heiðu Ingólfsdóttur kennsluráðgjafi Suðurnesjabæjar og Voga. Samstarfið gekk vel og er gert ráð fyrir að framhald verði á því nú í haust. Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari skrifaði sögu í rauntíma, nýjan kafla á hverjum degi í október 2021 sem birtist í texta og hljóði á heimasíðunni skólaslit.is. Samhliða því myndskreytti Ari Hlynur Yates söguna.

Upphaf verkefnisins má rekja til byrjun árs 2021 þegar kennsluráðgjafar á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar áttu samtöl um þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að lestraráhuga nemenda og þá sér í lagi hjá drengjum. Sú umræða um áskorunina að kveikja og viðhalda lestraráhuga hjá drengjum og í raun öllum nemendum hefur verið fyrirferðamikil í okkar samfélagi. Skólaárið á undan höfðu verið tekin rýnihópasamtöl við kennara á yngsta- og miðstigi grunnskóla um gagnlegar aðferðir, námsmat, námsefni og hvernig hægt væri að efla lestur, lestraránægju og lesskilning. Hér í Reykjanesbæ tóku skólarnir virkan þátt í verkefninu á fjölbreyttan hátt, til dæmis voru Hrekkjavökuhátíðir haldnar þar sem nemendur og kennarar klæddu sig upp sem sögupersónur Skólaslita og í einum skóla byggðu nemendur allt þorpið í sögunni í tölvuleiknum Minecraft. Sagan Skólaslit verður síðan gefin út af höfundi í bókaformi nú í haust og verður spennandi að sjá söguna verða að alvöru bók.

Fjögur önnur verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu en það voru verkefnin Bækur hafa alltaf tíma fyrir mig, þær eru aldrei uppteknar sem er lestrarvinna í Heiðarskóla en að því stóðu María Óladóttir, Ingunn Rós Valdimarsdóttir og Guðbjörg Pálmadóttir. Söngkeppnin Mylluvísjón sem haldin hefur verið í 15 ár og er verkefni í Myllubakkaskóla undir stjórn Írisar Drafnar Halldórsdóttur, Hildar Maríu Magnúsdóttur og Tinnu Aspar Káradóttur. Þar stíga nemendur á svið og syngja lag að eigin vali við undirleik. Verkefnið List og saga á vegum Sigitu Andrijauskiene í Öspinni í Njarðvíkurskóla. Margar þekktar listastefnur og listamenn sem tilheyra hverri stefnu voru tekin fyrir og öll verkefni byrjaðu á því að nemendur fengu fræðslu um viðfangsefnin og bjuggu svo til listaverk í anda þeirra. Söngleikurinn Grís undir stjórn Guðnýjar Kristjánsdóttur, Daníellu H. Gísladóttur og Estherar Níelsdóttur. Við undirbúning og uppsetningu söngleiksins fengu nemendur kennslu í að koma fram, setja sig í spor annarra og prófa sig áfram með mismunandi tjáningarform.

Á undan afhendingu Hvatningarverðlaunanna voru undirritaðir samningar vegna verkefna sem hljóta styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs í ár. Um er að ræða 20 verkefni og er þetta í þriðja sinn sem úthlutað er úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði.

 

Fulltrúar skólanna skrifa undir samninga vegna úthlutunar úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs fyrir skólaárið 2022 – 2023.