Hvernig fylgja opinber fjárframlög uppgangi á Suðurnesjum?

Hauststemmning í Reykjanesbæ. Ljósmynd: OZZO
Hauststemmning í Reykjanesbæ. Ljósmynd: OZZO

Reykjanesbær hefur látið vinna úttekt á fjárveitingum ríkisins til helstu stofnana á Suðurnesjum og hvernig þær hafa fylgt þeim mikla uppgangi sem verið hefur á svæðinu. Árleg fjölgun íbúa hefur verið langt umfram aðra landshluta sl. 3 ár. Úttektin verður kynnt á opnum fundi í Bíósal Duus Safnahúsa fimmtudaginn, 19. október, klukkan 17:30. Fundinum verður streymt gegnum Facebook síðu Víkurfrétta og aðgengilegur á vef Reykjanesbæjar að fundi loknum.

Úttektin tekur til fjárveitinga til mikilvægra verkefna á Suðurnesjum sem reiða sig á fjármögnun frá ríkinu. Sérstaklega er farið yfir hvernig opinber fjárframlög hafa fylgt þeim mikla uppgangi sem verið hefur á svæðinu. Til að setja opinberar fjárveitingar í samhengi eru þær einnig bornar saman við sambærileg verkefni á öðrum svæðum á landinu. Þá eru framtíðarhorfur metnar með tilliti til þeirra verkefna sem framundan eru á Suðurnesjum.

Úttektin er unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Aton og mun Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson fara yfir helstu niðurstöður hennar á fundinum.

Að lokinni kynningu verður opnað fyrir fyrirspurnir og umræður sem Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar mun stjórna. Reykjanesbær hefur boðið fulltrúum þeirra stofnana, sem fjallað er um í úttektinni, á fundinn auk þingmanna og frambjóðenda kjördæmisins svo að hægt sé að hefja umræðu um niðurstöður úttektarinnar þegar í stað.

Allir eru velkomnir á fundinn. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi yfir í 1,5 klst. og ljúki klukkan 19:00.