Jóla jóla ...síðasta helgin í aðventu

Aðventugarður
Aðventugarður

Það er margt hægt að gera sér til afþreyingar í Reykjanesbæ í aðdraganda jóla. Hér eru nokkrar stórgóðar hugmyndir fyrir fjölskylduna þessa síðustu helgi í aðventu.

Veljið best skreytta hús og götu í Reykjanesbæ
Hvað er skemmtilegra en að taka fjölskyldurúnt um bæinn og skoða öll glæsilega skreyttu húsin í bænum? Á vefnum betrireykjanesbaer.is er hægt að tilnefna fallega skreytt hús og götur og greiða atkvæði og eru bæjarbúar hvattir til að gefa öflugum skreyturum stórt klapp á bakið með því að fara á vefinn og smella hjarta á þau hús og götur sem eru fallega skreytt. Kosningu lýkur sunnudaginn 20. desember og því fer hver að verða síðastur til að taka þátt í þessum skemmtilega leik.
Viðurkenningar fyrir best skreytta hús og götu verða veitt í Aðventugarðinum kl. 20 á Þorláksmessu og þar kemur Húsasmiðjan sterk til leiks og leggur til tvö 40 þúsund króna gjafabréf til þeirra sem verða hlutskarpastir.

Kíkið í Aðventugarðinn á laugardag og Þorláksmessu
Það er óhætt að segja að Aðventugarðinum hafi verið tekið opnum örmum af bæjarbúum sem þar njóta ljósanna og upplifa sannkallaða jólastemningu með jólasveinunum og Grýlu, hlusta á jólatónlist og gera góð kaup í jólakofunum. Um helgina verður m.a. hægt að gæða sér á heitu súkkulaði, grilluðum sykurpúðum og ristuðum möndlum sem engan svíkja. Unglingaráð Fjörheima hefur einnig útbúið bráðskemmtilegan og jólalegan ratleik þar sem nýjar þrautir bætast við í hverri viku.
Íbúar eru hvattir til að huga vel að sóttvörnum í Aðventugarðinum og bera grímur.

Kíkið í Duus Safnahús og takið þátt í getraun og Jólasveinaratleik en passið ykkur á Grýlu og Leppalúða
Í Duus Safnahúsum er búið að setja upp skemmtilega gamaldags jólastofu þar sem tilvalið er að taka jólalegar myndir. Þar má líka fræðast um jólatrésskemmtanir sem haldnar voru um árabil af Duus versluninni og þóttu stórkostlegir viðburðir. Talnaglöggir geta svo leikið sér að því að giska á hversu mörg leikföng eru í dótakössum á leikfangasýningu Helgu Ingólfsdóttur í Stofunni. Verðlaun í boði fyrir þá sem giska rétt! Loks er boðið upp á spennandi ratleik í húsunum þar sem leita þarf að jólasveinunum sem hafa falið sig hingað og þangað en þó er vissara að passa sig á þeim Grýlu og Leppalúða sem liggja í leyni og fylgjast með öllum börnum sem þangað koma.

Skoðið og jafnvel kaupið listaverk í jólapakkann
Í Listasafni Reykjanesbæjar stendur sýningin List í 365 daga sem inniheldur verk eftir 365 listamenn. Þar á meðal eru verk eftir myndlistarmenn, hönnuði, skáld, ljósmyndara, kvikmyndagerðarmenn, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta fólk kemur úr ólíkum áttum en það tengist íslensku listalífi á einn eða annan hátt. Mörg verkanna eru til sölu og því tilvalið að versla myndlist í jólapakkann.

Smellið ykkur á jólasýningu í Grýluhelli
Í tilefni jólanna hefur verið sett upp sýning í Átthagastofu Bókasafnsins. Átthagastofunni hefur verið breytt í Grýluhelli þar sem hægt er að skoða pottinn hennar og jafnvel sjá nokkrum jólasveinum bregða fyrir. Álfakóngur og álfadrottning eru ekki langt undan en þau munu gæta hellisins og passa að öll börn sem fara í heimsókn komi aftur út heilu og höldnu.

Jólasveinn dagsins
Stekkjastaur kom til byggða þann 12.desember og bræður hans einn af öðrum á hverju degi til jóla. Þeir koma við í Duus Safnahúsum daglega til jóla og bregða á leik. Hægt er að fylgjast með uppátækjum þeirra á Facebook síðu Duus Safnahúsa þar sem stutt myndbönd eru birt daglega.

Jólabingó Reykjanesbæjar
Fjörheimarásamt Reykjanesbæ ætla að halda jólabingó sunnudaginn 20. desember klukkan 19:00. Við hvetjum ykkur til þess að tryggja ykkur spjald tímanlega en það er bæði hægt að prenta þau út og spila með þau í símanum. Heildarverðmæti vinninga er yfir 300 þúsund.  Bingóið mun fara fram í gegnum streymi.