- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Íbúar í Reykjanesbæ eru margir hverjir sannkölluð jólabörn og leggja mikinn metnað í jólaskreytingar. Á aðventunni hefur því verið einstaklega notalegt að keyra um bæinn og skoða fallega upplýst hús og fyrirtæki sem lýsa upp svartasta skammdegið. Þar sem Reykjanesbær stækkar stöðugt geta glæsilegar jólaskreytingar leynst víða og því þótti tilvalið að bjóða íbúum að taka þátt í laufléttum jólaleik.
Í leiknum gátu íbúar sent inn tillögur að jólahúsi Reykjanesbæjar og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar, enda leggja margir fyrirtækjaeigendur einnig mikinn metnað í fallegar skreytingar, hvort sem er utanhúss eða í töfrandi jólagluggum. Verkefnið var fyrst og fremst hugsað til skemmtunar og til að vekja athygli á því sem vel er gert hjá íbúum og fyrirtækjum í bænum. Húsasmiðjan studdi verkefnið með gjafabréfi til fulltrúa sigurvegara.
Það var Menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem fékk það ánægjulega hlutverk að velja jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar árið 2025 úr þeim tilnefningum sem bárust frá íbúum. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum og þakkar öllum sem tóku þátt með tilnefningum.
Jólahús Reykjanesbæjar
Þrátt fyrir mikinn metnað og fallegar skreytingar um allan bæ var einhugur í dómnefnd þegar kom að vali jólahússins í ár. Ekki ætti að koma mörgum á óvart að Reykjanesvegur 10 hreppti hnossið að þessu sinni, en þar hefur verið gengið skrefinu lengra en gengur og gerist í jólaskreytingum. Um 50.000 ljósaperur lýsa upp umhverfið og vegfarendur geta stillt inn á sérstaka útvarpsrás þar sem ljósin dansa í takt við jólatónlist. Reykjanesvegur 10 hefur svo sannarlega glatt vegfarendur á aðventunni og eru íbúar þar vel að viðurkenningunni komnir.
Jólafyrirtæki Reykjanesbæjar
Titillinn jólafyrirtæki Reykjanesbæjar hlýtur í ár fyrirtæki sem hefur lagt sig fram við að glæða bæinn ljósum og lífi með áberandi og fallegum skreytingum. Að þessu sinni rennur titillinn til The Dubliner, Hafnargötu 30. Fyrirtækið setti snemma upp glæsilegar ljósaskreytingar og hefur skapað líflega stemningu með tónlist úti á götu og jólafígúrum sem vakið hafa mikla athygli.
Það var Trausti Arngrímsson, formaður menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar, sem heimsótti eigendur jólahússins og jólafyrirtækisins og afhenti þeim viðurkenningu frá Reykjanesbæ og Húsasmiðjunni.



Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)