Jólasveinar í Duushúsum

Einn af jólasveinunum.
Einn af jólasveinunum.

Nú eru til sýnis í anddyri Duushúsa, gömlu íslensku jólasveinarnir, hannaðir og útbúnir af Keflvíkingnum Kolbrúnu Guðjónsdóttur. Fyrirmynd þeirra er sótt til myndskreytinga Tryggva Magnússonar í bókinni Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum sem er flestum Íslendingum vel kunnug, þar sem einkennum gömlu jólasveinanna eru gerð góð skil.

Kolbrún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Noregi á árunum 1998 -2004. Þar lagði hún m.a. stund á myndlist og hönnun og sótti ótal mörg og fjölbreytileg námskeið m.a. í notkun leirsins sem hún notar við gerð jólasveinanna. Hún fikraði sig áfram með notkun hans og smátt og smátt varð hugmyndin að íslensku jólasveinunum til.

Kolbrún segir að mjög sennilega hafi fjarveran frá heimalandinu haft sín áhrif á það að hugmyndin kviknaði en á þessum tíma las hún mjög gjarnan fyrir son sinn kvæðin hans Jóhannesar úr Kötlum. Einnig átti sinn þátt í að Kolbrún hrinti hugmyndinni í framkvæmd að hana langaði til að gleðja gamla íslenska vinkonu sína sem flust hafði til Bandaríkjanna en sú hafði verið mjög hrifin af tilteknum jólasveinum sem til sölu voru á vinkonuárum þeirra.

Það varð því úr að Kolbrún byrjaði á tveimur settum af jólasveinunum góðu. Settið sem hún ætlaði vinkonu sinni í Ameríku kláraði hún og sendi út en hitt endaði ofan í kassa og var flutt óklárað til Íslands þegar fjölskyldan flutti heim árið 2004.

Það var svo fyrir einu og hálfu ári þegar Kolbrún hætti að vinna og ætlaði að vera meira heima að hún fór að taka til í geymslunni og rakst þá á kassann góða með jólasveinunum. Þá setti hún sér það markmið að klára sveinana fyrir síðustu jól sem og hún gerði og voru þeir sýndir á Bókasafni Reykjanesbæjar og vöktu mikla athygli.

Sem fyrr segir eru jólasveinarnir til sýnis í anddyri Duushúsa og er fólk hvatt til að líta við og berja sveinana augum.