Jón Axel með leiðsögn á sunnudag 22. apríl

 

Tilvist

Áhugafólk um myndlist ætti ekki að láta sýningu Jóns Axels Björnssonar, Tilvist, framhjá sér fara en á  sunnudaginn kl. 14:00 tekur listamaðurinn sjálfur á móti gestum í sýningarsal Listasafnsins í Duushúsum. Til sýnis eru ný olíumálverk og vatnslitamyndir eftir Jón Axel en þetta er fyrsta stóra sýning hans  í  áratug.

Jón Axel  var meðal nokkurra listamanna sem komu fram undir merkjum „nýja málverksins“ snemma á níunda áratugnum, en skar sig snemma úr þeim hópi fyrir sjálfstæð vinnubrögð, ekki síst frásagnarlegan stíl sem snerist framar öðru um margháttaðan mannlegan vanda í lítt skiljanlegum heimi.

Í framhaldinu hefur myndlist Jóns Axels tekið ýmsum listrænum breytingum, orðið einfaldari og grafískari í formi, síðan nokkuð höll undir þrívíddarlist, jafnvel innsetningarformið. Nýjustu málverk hans eru opin og lífræn að formi og margræð að merkingu, en frásögnin í þeim snýst sem fyrr um leitina að einhvers konar haldreipi í hringiðu lífsbaráttunnar.

Jón Axel hefur haldið 21 einkasýningu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins og í nokkrum erlendum söfnum að auki. Hann hefur einnig myndlýst bækur og tímarit, þ.á.m. Ritsafn Snorra Sturlusonar ásamt öðrum, og hannað sviðsmyndir fyrir íslensk leikhús.

Sýningin stendur til 6. maí. Henni fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda ljósmynda og  texta um listamanninn. Aðgangur að Listasafninu er ókeypis og þangað eru allir velkomnir.