Júlíus Freyr hlýtur Súluna 2021

Júlíus Freyr Guðmundsson Súluhafi ásamt eiginkonu sinni Guðnýju Kristjánsdóttur
Júlíus Freyr Guðmundsson Súluhafi ásamt eiginkonu sinni Guðnýju Kristjánsdóttur

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2021, var afhent við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum í dag. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og fimmta sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut Júlíus Freyr Guðmundsson verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistar og leiklistar í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri afhenti Súluna fyrir hönd bæjarstjórnar og menningar- og atvinnuráðs. Við tilefnið sagði hann hverju bæjarfélagi mikilvægt að eiga fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna í bæjarfélaginu og að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilji með táknrænum hætti þakka fyrir það með veitingu menningarverðlaunanna.

Framlag til leiklistar og tónlistar

Júlíus Freyr er fæddur í Keflavík 22. september 1971. Hann er kvæntur Guðnýju Kristjánsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörnin. Þótt margir tengi Júlíus líklegast fyrst og fremst við tónlist hefur leiklistin einnig spilað stóra rullu í lífi hans. Sautján ára samdi hann leikritið „Er tilgangur?“ sem sett var á svið í Félagsbíói tveimur árum síðar en verkið fjallar um ungan mann sem ákveður að hætta í skóla og reyna fyrir sér í lífinu en lendir í ógöngum. Hljómsveitin Pandora, sem Júlíus var meðlimur í, gerði tónlistina í verkinu og var hún gefin út á plötu. Árið 1994 setti Leikfélag Keflavíkur á svið annað leikverk eftir þá Júlíus Frey og Sigurð Eyberg Jóhannesson en það var „Syndaselurinn Snorri“ sem fjallaði um poppsöngvarann Snorra og ófarir hans í Ameríku. Á þriðja tug leikara tóku þátt í sýningunni og tónlistarflutningur var í höndum nemenda úr tónlistarskólum Keflavíkur og Njarðvíkur. Júlíus hefur starfað með Leikfélagi Keflavíkur í 30 ár, setið í stjórn þess félags og haft áhrif á velgengni þess þau ár. Hann hefur unnið tónlist fyrir fjölda sýninga hjá félaginu, samið, tekið upp og verið tónlistarstjóri. Hann átti stóran þátt í því á sínum tíma að leikfélagið byggði upp Frumleikhúsið að Vesturbraut 17 þar sem öll starfsemi félagsins fer fram.

Tónlistarferill Júlíusar er samfelldur allt frá æskuárum en hann hefur verið í nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina. Hann gerði m.a. garðinn frægan sem trommuleikari með hljómsveitinni Pandoru, sem gaf út tvær plötur, og Deep Jimi and the Zep Creams, sem er enn að, og hefur gefið út fjórar plötur en sú hljómsveit komst á plötusamning hjá bandaríska útgáfurisanum Warner Brothers og fóru liðsmenn sveitarinnar til Bandaríkjanna á sínum tíma og reyndu fyrir sér þar. Júlíus spilaði með föður sínum, Rúnari Júlíussyni, í mörg ár og er nú bassaleikari Bergrisanna. Hann hefur gefið út þrjár sólóplötur sem listamaðurinn Gálan þar sem hann semur öll lög og texta og leikur á öll hljóðfæri sjálfur. Nýverið gaf hann út efni undir listamannsnafninu Julius & Julia sem hefur hlotið þó nokkra spilun á Spotify víða um heim.

Þeir bræður, Júlíus og Baldur ásamt móður þeirra og fjölskyldum, eiga og reka fjölskyldufyrirtækið Geimstein að Skólavegi 12 en þar hefur Júlíus haft veg og vanda að uppbyggingu hljóðversins í gegnum tíðina, stjórnað upptökum og hljóðritað slatta af útgefnu efni Geimsteins. Hann hefur tekið upp ótal verkefni fyrir hina ýmsu aðila og veitt ungum tónlistar- og tæknimönnum leiðsögn. Þeir bræður ásamt fjölskyldum settu á fót Rokkheima árið 2009 en það er safn um rokkkónginn Rúnar Júlíusson og þar hefur verið tekið á móti hópum með spjalli og söng.

Innblástur til áframhaldandi sköpunar

Júlíus hefur í áranna rás hefur lagt jafnt og þétt til menningarlífs í Reykjanesbæ, bæði með eigin hugverkum og framlagi sem og aðstoð við aðra og þátttöku í fjölmörgum menningartengdum verkefnum. Það er hverju bæjarfélagi fengur af slíkum einstaklingum sem leggja gott til fjölmargra verkefna í þágu blómlegs menningarlífs í sínum heimabæ. Júlíus er því vel að þessari viðurkenningu kominn og er það von bæjaryfirvalda að hún verði honum innblástur til áframhaldandi sköpunar og starfa á sviði menningarlífs í Reykjanesbæ. Bæjarstjórn og menningar- og atvinnuráð þakka honum fyrir áralanga vinnu og stuðning við menningarmál bæjarins.

Hér má sjá viðtal við Júlíus sem birt var í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta í tilefni af menningarverðlaununum.