Karamellum rigndi af himni ofan

Frá viðburði á Barnahátíð.
Frá viðburði á Barnahátíð.

Þrátt fyrir frekar blauta veðurspá var karamelluregn á Keflavíkurtúni eina rigningin sem lét sjá sig á líflegri Barnahátíð í Reykjanesbæ sem haldin var um helgina. Þeirri rigningu var stýrt af Brunavörnum Suðurnesja sem dreifðu karamellum úr körfubíl yfir barnahópinn sem tók rigningunni opnum örmum í bókstaflegri merkingu.
Múgur og margmenni heilsaði upp á Skessuna sem bauð upp á lummur í glampandi sólskininu í tilefni hátíðarinnar og svitinn hreinlega bogaði af Fjólu tröllastelpu, vinkonu Skessunnar, sem komin var beint af fjalli vafin sauðagærum eftir langan vetur til að gefa börnunum blöðrur.

Á fimmta þúsund gesta heimsóttu Víkingaheima á laugardaginn, þar sem margt var til skemmtunar svo sem opnun Landnámsdýragarðsins, leikfangamarkaður barnanna, sirkussýning, Víkingar og margt fleira. Á annað þúsund gesta lögðu leið sína í Duushús til að skoða sýningu leikskólanna og Listasafns Reykjanesbæjar, Umhverfi okkar er ævintýri, og fjöldi barna sótti smiðjur, lék sér í tívolítækjum eða öðru því sem hátíðin bauð upp á, öllum að kostnaðarlausu.

Mikil ánægja er meðal aðstandenda hátíðarinnar yfir því hvernig til tókst en Barnahátíðin er liður í þeirri viðleitni Reykjanesbæjar að stuðla að fjölskylduvænu samfélagi. Dagskráin byggðist upp á þeim tækifærum sem eru til staðar í bænum fyrir börn og fjölskyldur svo sem Landnámsdýragarðinum, Víkingaheimum, Duushúsum, Innileikjagarðinum og Vatnaveröld, auk viðburða sem boðið var upp sérstaklega í tilefni hátíðarinnar. Andrúmsloftið var afslappað, fjölskyldur nutu dagskrárinnar saman og ekki skemmdi fyrir að veðrið lék við gesti og gangandi.