Karen J. Sturlaugsson er listamaður Reykjanesbæjar

Mynd: Víkurfréttir. Karen með verðlaunagripinn Vöxt sem keramikhönnuðurinn Arnbjörg Drífa Káradótti…
Mynd: Víkurfréttir. Karen með verðlaunagripinn Vöxt sem keramikhönnuðurinn Arnbjörg Drífa Káradóttir bjó til fyrir þetta tilefni.

Var í dag einnig sæmd fálkaorðunni fyrir framlag sitt til tónlistaruppeldis ungmenna.

Bæjarráð Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum, þann 19. maí sl. að útnefna Karen J. Sturlaugsson, tónlistarmann, sem næsta bæjarlistamann Reykjanesbæjar 2022 – 2026. Karen var veitt viðurkenningin við hátíðardagskrá 17. júní í skrúðgarðinum í Keflavík í dag. Svo skemmtilega vildi til að í dag hlaut Karen einnig riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til tónlistaruppeldis ungmenna.

Karen er fædd og upp alin í nágrenni Boston í Bandaríkjunum en á ættir að rekja til Íslands. Hún fluttist til Íslands með eiginmanni sínum Birni Sturlaugssyni að loknu háskólanámi í trompetleik og hljómsveitastjórn og stærðfræði. Hún hóf kennslu við Tónlistarskólann í Keflavík árið 1988 og var skólastjóri 1998-1999. Hún hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar síðan 1999.

Karen hefur unnið við tónlistarkennslu og hljómsveitarstjórn í gegnum árin og byrjaði 16 ára að stjórna lúðrasveit. Fljótlega eftir að Karen hóf kennslu við Tónlistarskólann í Keflavík árið 1988 tók hún við lúðrasveit skólans og stofnaði léttsveit skólans sem í dag gengur undir nafninu Stórsveit Suðurnesja.

Árið 2012 stofnaði Karen Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nú stýrir hún annarri og þriðju kynslóð bjöllukórsins. Bjöllukórinn hefur tekið þátt í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sl. 10 ár og er orðinn ómissandi hlutur þeirra tónleika. Kórinn var einnig fenginn til að taka þátt í tónleikum árið 2015 í Carnegie Hall í New York og hefur átt merkilegt samstarf við hljómsveitina Sigurrós og m.a. tekið upp plötu fyrir hana.

Hljómsveitir Karenar hafa verið mjög virkar í gegnum árin og tekið virkan þátt í menningarlífi hér í Reykjanesbæ t.d. í kringum jólin og við aðrar hátíðir og viðburði árið um kring. Karen hefur einnig stjórnað hljómsveitum í ýmsum söngleikjum á vegum tónlistarskólanna, nú síðast Fiðlaranum á þakinu.

Síðan 2018 hefur Karen stjórnað Lúðrasveit Verkalýðsins, stórri áhugamannalúðrasveit í Reykjavík sem hefur núna í lok júní verið boðið að taka þátt í lúðrasveitamóti á Ítalíu.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ færa Karenu bestu þakkir fyrir árangursríkt og mikilsvert starf í þágu barna, ungmenna og menningarlífs Reykjanesbæjar. Karen á vonandi mörg ár eftir sem aðstoðarskólastjóri, kennari og hljómsveitarstjóri og getur sem slík haldið áfram að auðga mannlífið í Reykjanesbæ.

Karen hefur lagt mikið af mörkum á sviði tónlistar og hefur átt ríkan þátt í að litið er til Reykjanesbæjar sem menningarbæjar.

Til hamingju Karen!