Krafa íbúa að sátt skapist um rekstur flugvallarins

Klippa af útsendingu Víkurfrétta á Facebook frá íbúafundinum.
Klippa af útsendingu Víkurfrétta á Facebook frá íbúafundinum.

Íbúar í Reykjanesbæ hafa að undanförnu líst yfir áhyggjum af aukinni flugumferð á Keflavíkurflugvelli og ekki síst í ljósi þess að flugumferð á Vestur/Austurbraut liggur m.a. yfir bæinn. Brautina þurfti að nota í miklu mæli síðasta sumar vegna viðgerða við Norður/Suðurbraut. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ fór yfir málin frá sjónarhorni íbúa á íbúafundi Isavia í Bíósal Duus Safnahúsa í gær. Í máli Þrastar Söring framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs Isavia og Vals Klemenssonar deildarstjóra umhverfisdeildar Keflavíkurflugvallar kom fram að breytingar verði á í sumar, bæði varðandi flugumferð yfir bæinn en einnig á hljóðstyrks- og loftgæðamælingum við byggð í nálægð flugvallarins.

Í máli Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra kom fram að mikið af kvörtunum hafi borist til hans frá íbúum bæjarins vegna ónæðis frá flugumferð, sérstaklega við lokun N/S brautar síðasta sumar sem jók umferð yfir bæinn. Hann sagði á fundinum að krafa íbúa væri að:

  • ónæði af flugumferð verði lágmarkað eins og frekast er kostur.
  • flugumferlar hannaðir þannig að flugumferð fari ekki beint yfir byggð, nema útilokað sé að að nota aðrar brautir.
  • reglur Evrópusambandsins um þessi mál verði innleidd og eftir henni farið.
  • rekstraraðilar flugvallarins geri allt sem í þeirra valdi stendur til að haga flugumferð um völlinn þannig að sátt geti skapast og að ónæði af henni verði sem minnst. Það hafi tekist víðast erlendis þar sem flugvellir eru nærri íbúabyggð.
  • fylgst verði með loftmengun.

Í máli Þrastar Söring kom fram að Norður/Suður brautin verði notuð í ríku mæli í sumar, þegar því verður komið við, sem þýðir minna flug yfir bæinn. Þá fór Valur Klemensson yfir nýtt hljóðmælingakerfi sem opnað verður í júníbyrjun og gefur íbúum tækifæri á að fylgjast með mælingum á rauntíma, m.a. við sitt heimili. Þrír hljóðnemar verða settir upp til að mæla áhrif flugumferðarinnar á hljóðvist, ofan Eyjabyggðar, við Grænás og við Háaleitisskóla. „Verður mikilvægt að fá svona mælingar til að hægt sé að fylgjast með ónæði sem kann að vera að flugumferð,“ segir Valur.

Isavia mun einnig setja upp loftgæðamæla og verða þeir komnir í notkun um miðjan júní. Með því fást betri upplýsingar um hvað flugumferð er að losa á hverjum tíma, eins og fram kom í máli Vals. Niðurstöður mælinga bæði á hljóðvist og loftgæðum verða aðgengilegar á vef Isavia.