KRÍA / KLETTUR / MÝ, listamannaspjall Svövu Björnsdóttur

Úr listasalnum.
Úr listasalnum.

Næstkomandi sunnudag, 16. febrúar kl. 15.00, tekur Svava Björnsdóttir á móti gestum í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og leiðir þá um sýningu sína KRÍA / KLETTUR / MÝ. Þar hefur Svava gert skemmtilega tilraun til að skapa samnefnara fyrir ákveðna náttúruinnlifun með innsetningu sinni.

Svövu þarf vart að kynna; hún hefur um árabil verið meðal þeirra listamanna sem mest hafa lagt til endurnýjunar þrívíddarlistarinnar á landinu. Allt frá því hún sneri heim frá Þýskalandi við upphaf níunda áratugarins, eftir glæstan námsferil og margvíslegan framgang í München og víðar í Evrópu, hefur hún sent frá sér fjölda verka sem umbylt hafa viðteknum hugmyndum okkar um hlutverk og verkan þrívíddarmynda í nútíma umhverfi. Verkin hefur hún steypt úr lituðum pappírsmassa, sem hefur gert henni kleift að nýta sýningarrými – og rými almennt – með nýjum hætti. Þannig virkjar Svava ekki einasta gólf og veggi, heldur einnig loft, skúmaskot og afkima sýningarrýmisins. Með markvissri sviðsetningu verka sinna gerir hún sérhvert rými að heildstæðri innsetningu með dramatísku ívafi.

Formgerð Svövu er sömuleiðis óvenjuleg. Verk hennar minna í senn á vélarhluta, form náttúrunnar og lifandi verur, og eru jafn fjölbreytileg að inntaki. Lögun og litróf verkanna skipta hana miklu máli, en einnig léttleiki þeirra, samspil og ljóðrænn slagkraftur.

Nánari upplýsingar á vef safnsins listasafn.reykjanesbaer.is