Lágar greiðslur Jöfnunarsjóðs til Suðurnesja undrunarefni Íslandsbanka

Reykjanesbær
Reykjanesbær

Þrátt fyrir að tekjur íbúa séu hlutfallslega lægstar á Suðurnesjum og atvinnuleysi mest, eru greiðslur úr jöfnunarsjóði ríkisins árið 2011 næst lægstar til Suðurnesja þegar landshlutar eru skoðaðir.  Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, sem miðar við árið 2011.  Þar er bent á hversu lágt framlag rennur þangað úr Jöfnunarsjóði.  Jafnframt kemur fram í skýrslunni að rekstur sveitarfélaga mælt í stöðugildum á íbúa er hagkvæmastur á Suðurnesjum.  Skuldahlutfall, sem tekur til allra skulda og skuldbindinga sveitarfélaga deilt með reglulegum tekjum, er þó einna hæst á Suðurnesjum og skiptir þar án efa mestu um stöðu Reykjanesbæjar og Sandgerðis.

Í skýrslunni segir „hafa þarf í huga að skuldahlutfallið eitt og sér segir ekki alla söguna. Þjónusta við íbúa getur verið mismikil eftir sveitarfélögum og líkleg skýring á háu skuldahlutfalli hjá sumum þeirra er einmitt sú að þau fóru í framkvæmdir fyrir árið 2008 til þess að auka þjónustuna við íbúa, t.d. með uppbyggingu leikskóla, endurbótum á grunnskólum, byggingu sundlauga o.s.frv.“ (bls. 14). 
Í tilviki Reykjanesbæjar var um að ræða byggingu nýs grunnskóla Akurskóla, auk þess sem þrír nýir leikskólar bættust við og annar grunnskóli að Ásbrú.  Þá fóru fram miklar endurbætur á bæði leikskólum og grunnskólum, unnið var við endurbætur Stapans og uppbyggingu tónlistarskóla í svonefndri Hljómahöll við Stapann, miklar umhverfisbætur voru unnar og síðast en ekki síst mikil fjárfesting í uppbyggingu Helguvíkur sem stórskipahafnar og iðnaðarsvæðis.

Í skýrslu Íslandsbanka segir jafnframt (bls. 11) að samanburðurinn eigi við árið 2011 en á síðasta ári hafi farið fram endurskipulagning Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, sem hafi jákvæð áhrif á rekstur þeirra sveitarfélaga sem þar eru inni.  Þá er sala eigna og uppgreiðsla skulda nokkurra sveitarfélaga á síðasta ári nefnd til sögunnar og því verði fróðlegt að horfa á þróunina þegar ársreikningur fyrir árið 2012 liggi fyrir.  Reykjanesbær er í hópi þeirra sveitarfélaga sem tengjast endurskipulagningu Fasteignar, auk þess sem öllum skuldum var komið í skil og erlend lán bæjarins voru greidd upp á síðasta ári.