Landnámið lifnar við!

Nemendur í vettvangsferð.
Nemendur í vettvangsferð.

Landnámið lifnar við

Menningarsvið Reykjanesbæjar bauð í síðustu viku nemendum 5. bekkja í grunnskólum Reykjanesbæjar í vettvangsferð í Víkingaheima og að fornleifarannsókn í Vogi í Höfnum þar sem árið 2002 fundust rústir af landnámsskála.

Árið 2009 hóf Fornleifafræðistofan undir stjórn Dr. Bjarna F. Einarssonar fornleifarannsókn þar í samstarfi við Byggðasafn Reykjanesbæjar. Frumniðurstöður sýna skála sem gæti verið með elstu mannvistaleifum sem fundist hafa á Íslandi. Nú er hafinn þriðji og væntanlega síðasti áfangi rannsóknarinnar í Höfnum. Í Víkingaheimum eru til sýnis ýmsir gripir sem fundist hafa í rannsókninni í Höfnum.

Skemmst er frá því að segja að nemendur 5. bekkja í Reykjanesbæ sem flest hafa kynnst Leifi heppna og landnáminu í námi sínu í vetur stóðu sig frábærlega í heimsóknunum, voru áhugasamir og fróðleiksfúsir og sjálfum sér og skólum sínum til sóma í allri framkomu.  Þeir hafa nú séð með eigin augum raunverulegar minjar frá landnámi í sinni heimabyggð og geta örugglega frætt foreldra sína og aðra um ýmislegt áhugavert þessu tengt – ef þau bara eru spurð!