Leiðsögn listamanns á sunnudag

Frá sýningu Björns Birnir
Frá sýningu Björns Birnir

Á sunnudag lýkur sýningu Björns Birnir í listasal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum. Af því tilefni verður listamaðurinn á staðnum kl. 14:00 og leiðir gesti um hinar „Afleiddu ómælisvíddir" sýningarinnar þar sem mestmegnis gefur að líta óhlutbundin akrílverk innblásin af árstíðunum.

Þótt Björn Birnir hafi ekki verið áberandi í sýningarhaldi á ferli sínum hefur hann lagt stund á myndlist í meira en hálfa öld og er listunnendum vel kunnur. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur segir um verk Björns að hann sé eini íslenski listamaðurinn sem byggt hefur verk sín á sandi í bókstaflegri merkingu. Þar vísar hann til þess að verk Björns einkennast gjarnan af víðerni, láréttum flötum sem teygja sig eftir endilöngum dúkum hans, án þess mótvægis lóðréttra dranga eða skáhallandi fjalla sem íslenskir áhorfendur reiða sig gjarnan á.

Allir velkomnir og heitt á könnunni.