Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Oft var þörf en nú gæti verið nauðsyn að fá leiðsögn um nýopnaða sýningu Listasafnsins „Líkami, efni og rými.“ Það er nú einu sinni þannig að list er misaðgengileg fólki en getur stundum verið spurning um þjálfun. Þetta þekkjum við vel í tengslum við tónlist. Öll hlustum við á tónlist af einhverju tagi en getum eflaust verið sammála um að það þurfi ákveðna þjálfun til að læra að meta klassíska tónlist, djass, blús eða aðrar tónlistarstefnur sem eru okkur ekki eins tamar. Það sama gildir um myndlist og því getur okkur brugðið við þegar við sjáum sýningu sem virðist okkur mjög framandi. Að sama skapi er það líka mjög spennandi og ákveðin áskorun í því falin að reyna að upplifa eða skilja hverju listamaðurinn vill reyna að koma á framfæri með list sinni. 

Þannig eru allir þeir sem áhuga hafa hvattir til að mæta á leiðsögn listakvennanna Eyglóar Harðardóttur, Ólafar Helgu Helgadóttur og Sólveigar Aðalsteinsdóttur og sýningarstjóra Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur n.k. sunnudag, 25.nóvember, kl. 15, í  sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum.