Börnin 8 ásamt kennara sínum Sigurbjörtu Kristjánsdóttur, Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs …
Börnin 8 ásamt kennara sínum Sigurbjörtu Kristjánsdóttur, Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs og Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra

Það sannaðst í dag að íbúar í Reykjanesbæ á öllum aldri eru virkir í umræðunni og nýta lýðræðið við að koma hugmyndum sínum á framfæri. Átta fjögurra og fimm ára börn af Dal í leikskólanum Hotli komu í viðtalstíma til bæjarstjóra í dag. Þau vildu koma hugmynd sinni á framfæri um hvernig væri hægt að koma því við að öll börn á setningu Ljósanæturhátíðar fengju að snerta eða slá í stóran Ljósanæturbolta. Sum höfðu ekkert fengið að snerta bolta og fannst það miður. 

Þau Alexander Liljar, Fannar Ingi, Emma Ástrós, Sóley Björk, Gabríel Örn, Rebekka Júlía, Arnar Þór og Telma Líf komu ásamt kennara sínum, Sigurbjörtu Kristjánsdóttur, með vel skreytt umslag merkt Kjartan bæjarstjóri og í því var bréf með hugmynd. „Viltu setja band á boltann eða segul á Ljósanótt.“ Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs kom á fundinn og sögðu hann og Kjartan Már að sjálfsögðu taka hugmyndina til greina og þökkuðu frábært innlegg í stjórn bæjarins. Kjartan Már sagði þetta einhverja skemmtilegustu heimsókn sem hann hefði fengið.

 Börnin komu með bréf til bæjarstjóra þar sem hugmyndir eru kynntar