- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ hefur hlotið formlega viðurkenningu sem UNESCO skóli og er þar með fyrsti leikskólinn á Suðurnesjum og annar leikskólinn á Íslandi til að verða hluti af alþjóðlegu skólaneti Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Viðurkenningin markar stórt skref fyrir skólann sem hefur löngum byggt starf sitt á gildum sem tengjast heimsmarkmiðum UNESCO.
UNESCO skólar vinna með alþjóðleg málefni, lýðræði, mannréttindi, fjölmenningu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að efla frið, virðingu og víðsýni. Starfsfólk Gimli segir að heimsmarkmið UNESCO og hugsjónir skólans hafi farið einstaklega vel saman þar sem leikskólinn hefur árum saman lagt áherslu á jafnrétti, kærleika, umhyggju og virðingu í daglegu starfi.
Starf byggt á mannrækt og virðingu
Gimli starfar eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar og er þar áhersla lögð á mannrækt bæði barna og starfsfólks. Kennarar vinna í sex lotum yfir árið þar sem horft er sérstaklega til aga, sjálfstæði, samskipti, jákvæðni, vináttu og áræði. Markmiðið er að efla félagsfærni, sjálfstraust og vellíðan nemenda. Leikskólinn hefur einnig kennt jóga frá árinu 2007 og vinnur með núvitund og náttúrutengsl í vettvangsferðum allan ársins hring.
„Að okkar mati samræmast gildi og hugsjónir UNESCO því sem við erum að gera í leikskólanum,“ segja Sigurbjörg E. Gunnarsdóttir, kjarnastýra og Regína Rósa Harðardóttir, sérkennslustýra á Gimli í samtali.
Haustið 2024 sóttu leik og grunnskólar á Reykjanesinu kynningu á heimsmarkmiðum og starfsemi UNESCO skóla í samstarfi við Reykjanes Geopark og GeoCamp Iceland. Í framhaldinu skrifaði Gimli undir viljayfirlýsingu um að stefna að UNESCO viðurkenningu innan tveggja ára.
Starfsfólk segir að ferlið hafi gengið hratt og vel þar sem stór hluti skólastarfsins var þegar í nánu samhengi við heimsmarkmiðin. Á vormánuðum 2025 sendi skólinn inn ítarlega umsókn sem var samþykkt síðla árs og hlaut Gimli þá formlega viðurkenningu sem UNESCO leikskóli.
Heimsmarkmið og fimm þemu í forgrunni
Gimli valdi eitt heimsmarkmið til að vinna sérstaklega með: Heimsmarkmið 12 – Ábyrg neysla og framleiðsla.
Auk þess hefur kennarahópurinn skilgreint fimm lykilþemu sem vinna á með í gegnum allt skólastarfið:
Þemun tengjast nálgun Hjallastefnunnar og grunnstoðum skólans þar sem jafnrétti, lýðræði og sköpun eru leiðarljós í öllu starfi.
Flagga UNESCO fánanum tvisvar á ári
Sem UNESCO skóli mun Gimli flagga UNESCO fánanum á tveimur alþjóðlegum dögum, 5. júní á alþjóðlegum degi umhverfisins og 15. september á alþjóðlegum lýðræðisdegi.
Markmiðið er að efla meðvitund barna um alþjóðleg málefni á lifandi og þroskandi hátt.
Stór áfangi fyrir skólasamfélagið
Viðurkenningin markar mikilvæg tímamót fyrir Gimli og Reykjanesbæ. Gimli er nú orðinn hluti af öflugu alþjóðlegu skólaneti sem vinnur að því að efla frið, samfélagslega ábyrgð, gagnrýna hugsun og virðingu í framtíðarkynslóðum.
„Þetta er spennandi og eflandi skref fyrir okkur öll. Þetta eykur víðsýni nemenda og kennara og opnar dyr að nýjum verkefnum,“ segja þær Sibba og Rósa.
Reykjanesbær óskar leikskólanum Gimla hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna og hlakkar til að fylgjast áfram með því frábæra starfi sem á sér stað á leikskólanum.

Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)