Leikskólinn Holt, Efnisveita í Reykjanesbæ

Frá efnisveitunni.
Frá efnisveitunni.

Áskorun fyrir  samfélagið okkar í umhverfismálum

Í Rammahúsinu á Fitjum í Reykjanesbæ hefur verið sett á stofn efnisveita. Efnisveita byggir á þeirri grundvallarsýn að með samvirkni menningar og lista, skóla og frumkvöðla sé mögulegt að finna afgangshlutum nýja notkun og merkingu og breyta þeim í auðlind. Slíkir hlutir geta t.d. verið óseldar birgðir, úrkast frá iðnaði og handverksframleiðslu, gallaðar vörur og hlutir sem álitnir eru einskisvirði. Ekki er átt við efni sem flokkast undir úrgang. Efniviðurinn þarf að vera hreinn og laus við eiturefni.

Margir leik og grunnskólar í Reykjanesbæ vinna ötullega að umhverfismálum og margir hverjir fengið Grænfánann sem er tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Með aðgangi að efnisveitu verður enn frekar ýtt undir umhverfismennt og fjölbreyttari námsleiðir barna þar sem efniviðurinn er fjölbreyttur og nýtanlegur í námi og leik á áhugaverðan hátt. Síðast en ekki síst er þetta leið að umhverfisvænna samfélagi. Framsýn leið til að efla samfélagsvitund okkar allra með góðri samvinnu heimila, skóla og fyrirtækja.

Við óskum því eftir samstarfi við bæjarbúa varðandi afgangsefni sem þið annars mynduð henda.
Þeir sem vilja leggja okkur lið vinsamlegast komið efniviðnum í Rammahúsið á Fitjum, Safnahús Reykjanesbæjar.

Nánari upplýsingar í síma 4203175 (Ingibjörg/Kristín)
Ingibjörg Guðmundsdóttir verkefnastjóri.