Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ hefur verið tilnefndur til eTwinning verðlauna 2016 innan Evrópuverkefnisins Eramus+ fyrir verkefnið Lesum heiminn (e. Read the world). Þar er barnasagan um Greppikló notuð til að vinna viðfangsefni þar sem læsi og lýðræði eru tengd saman. Í desember sl. fékk skólinn gæðaviðurkenningu frá Rannís fyrir verkefnið.

Verkefni Holts fellur í flokk barna á aldrinum 4 - 11 ára. Markmiðið með Lesum heiminn er að fá börn til að hugsa út fyrir rammann og nota skapandi hugsun. Könnunanferlið getur verið margvíslegt, s.s. með umhverfis- og náttúrlæsi, samfélagsrýni og tækni, þar sem læsi er fléttað saman við könnunarferlið. Til að byggja upp þekkingarbrunn er notast við sögu Julian Donaldsson um Greppikló, sem Þórarinn Eldjárn hefur þýtt yfir á íslensku. Í verkefninu er m.a. notaður söngtexti um Greppikló sem saminn var í leikskólanum í samvinnu Sigurbjartar Kristjándóttur og nemenda.

Í verkefninu hefur leikskólinn átt í samstarfi við leikskóla í Póllandi, Frakklandi, Slóveníu og á Spáni. Kynnt verður á næstu dögum hver hlýtur verðlaunin, en í þessum flokki eru 13 verkefni tilnefnd. Hægt er að lesa um þau á hér.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar gæðaviðurkenning Rannís var afhent í desember, f.v. Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Kristín Helgadóttir leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar, Anna Sofia Walström leikskólakennari Holti, Sigurbjört Kristjánsdóttir leikskólakennari Holti og Heiða Ingólfsdóttir leikskólastjóri Holti.