Lestrarupplifun fyrir alla

Það styttist í SKÓLASLIT en eftir því hefur verið beðið með ofvæni hér í Reykjanesbæ. Í október verða SKÓLASLIT sem er lestrarupplifun fyrir áhugasama og forvitna og alla hina sem vilja vera með. Á hverjum degi í október mun birtast okkur einn kafli úr sögunni Skólaslit eftir Ævar Þór Benediktsson í myndlýsingu Ara Hlyns Guðmundssonar Yates.

Þann 1. október 2021 byrjar sagan sem er hrollvekja í þrjátíu og einum hluta og fjallar um hóp af krökkum sem lokast inni í skólanum sínum á hrekkjavöku. Sagan mun birtast okkur á vefsíðunni www.skolaslit.is

Lestrarupplifunin er í boði Reykjanesbæjar og styrkt af Sprotasjóði. Hún er unnið í samstarfi Ævars Þórs við kennsluráðgjafa og grunnskóla Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga, Fjörheima og Bókasafns Reykjanesbæjar og er hugsað til að vekja athygli á lestri á nýjan, frumlegan, skapandi og skemmtilegan máta.

Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu og skráning er óþörf, það eina sem þarf er að vera með. Ef spurningar vakna varðandi SKÓLASLIT þá sendu okkur þær á skolaslit@gmail.com