Lífshlaupið er landskeppni í hreyfingu.
Lífshlaupið er landskeppni í hreyfingu.

Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag og því er vel við hæfi að ræsa Lífshlaupið hér í bæ. Aðrir samstarfsaðilar er Skólahreysti og þar hefur Holtaskóli staðið sig með eindæmum vel á undanförnum árum. Þá sigraði starfsfólk Holtaskóla í Lífshlaupinu 2016 í flokki 30-69 starfsmanna.  Setningarathöfn verður haldin í íþróttahúsinu við Sunnubraut kl. 9:00 þann 1. febrúar og eru allir velkomnir. Einstaklingar, stofnanir og skólar eru hvött til að taka þátt í Lífshlaupinu. Skráning fer fram á vefnum www.lifshlaupid.is.

Bætt heilsa starfsmanna og íbúa skiptir máli

Markmiðið með heilsueflandi samfélagi er að stuðla að bættri heilsu allra íbúa Reykjanesbæjar, þar sem áhersla er lögð á að bæta félagslegt og manngert umhverfi og draga úr tíðni lífstílstengdra sjúkdóma með margvíslegu heilsueflingarstarfi.

Meðal áhersluþátta er að gera holla valið að auðvelda valinu og taka mið af mögulegum áhrifum stefnumótunar á heilsu. Tryggja þarf jöfn tækifæri fyrir þá sem vilja stunda heilbrigðan lífsstíl og efla enn frekar þá frábæru aðstöðu sem er til staðar í Reykjanesbæ.

Í lýðheilsustefnu fyrir Ísland, sem samþykkt var 2016, kemur fram að stefna skuli að því að innleiða áherslur um heilsueflingu meðal menntastofnanna, vinnustaða og samfélaga. Heilsa íbúa mótast af samspili margra þátta og því er mjög mikilvægt að samfélagið í heild taki virkan þátt í því að efla heilsu og líðan.
Lífshlaup ÍSÍ á tíu ára afmæli um þessar mundir en með verkefninu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á virkum ferðamáta.

Holtaskóli, sem var sigurvegari í Skólahreysti 2016, mun taka virkan þátt í athöfninni að þessu sinni og fer hún fram í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Við viljum hvetja allar stofnanir, skóla og einstaklinga til þess að skrá sig í Lífshlaup ÍSÍ, en skráningin fer fram á heimasíðu verkefnisins, www.lifshlaupid.is

Fyrir hönd samráðshóps, Jóhann Fr. Friðriksson, verkefnastjóri
Heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ