Svipmynd frá flugeldasýningu HS Orku á upplýsingu Berginu
Svipmynd frá flugeldasýningu HS Orku á upplýsingu Berginu

Þúsundir heimamanna og gesta skemmtu sér konunglega á þriðja degi Ljósanætur í gær. Hátíðin er líklega með þeim fjölmennustu á þeim 16 árum sem hún hefur verið haldin og heimamenn eru á einu máli um að sjaldan hafi verið eins skemmtilegt. Hér spilar veðrið að sjálfsögðu stórt hlutverk og var veðurguðunum sérstaklega þakkað á hátíðarsviðinu í gær. Í dag getur fólk nýtt tækifærið til að skoða sýningar og vinnustofur sem það hefur ekki náð að skoða, kíkt í Hafnir þar sem bæði eru tónleikar með Valdimar í Kirkjuvogskirkju og ljósmyndasýning í Skólanum eða farið á tónlistarsýninguna Með blik í auga 6: Hvernig ertu í kántrýinu? í Andrew Theater í dag eða kvöld, en tvær sýningar verða á þessum lokadegi Ljósanæturhátíðar. Nánari upplýsingar um dagskráliði er að finna á www.ljosanott.is.

Reykjanesbær fylltist af fólki í sólskinsskapi strax í gærmorgun þegar Lína Langsokkur heimsótti bæinn og sprellaði með börnunum. Fleiri hundruð börn söfnuðust saman í Ungmennagarðinum til að fylgjast með æslalátum Línu og sprella með henni. Hver viðburðurinn rak síðan annan og á hátíðarsviði um kvöldið hlustuðu gestir á Ljóssins engla Magnúsar Kjartanssonar og gesta, Stórsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Jóhönnu Ruth og Pál Óskar, sem hóf leikinn strax að lokinni glæsilegri flugeldasýningu HS Orku og tendrun Bergsins fyrir veturinn. Páll Óskar hélt síðan Ljósanæturball í Stapa.

Bæjarbúar og nærsveitamenn úr 66 árgangi skapaði sérstaka stemmningu í Árgangagöngunni í gær, en hún er meðal vinsælustu viðburða Ljósanætur ár hvert. Þau klæddust öll appelsínugulu og vöktu hvarvetna athygli með taumlausri gleði en 50 ára hópurinn er heiðursárgangur ár hvert. Jóhann Smári Sævarsson bassasöngvari stjórnaði fjöldasöng á miðri Hafnargötu og Árelía Eydís Guðmunsdóttir fór fyrir hópnum í máli á hátíðarsviði og vakti alla til umhugsunar.

Forsvarsmenn Ljósanæturhátíðar og Reykjanesbær þakkar heimamönnum og gestum fyrir frábæra fjögurra daga hátíð og vonast til að geta endurtekið leikinn eins mynduglega að ári.