Súluverðlaunahafinn 2018, listakonan Sossa og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.
Súluverðlaunahafinn 2018, listakonan Sossa og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.

Listakonan Sossa fékk menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna fyrir árið 2018. Afhending verðlaunanna fór fram við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum í dag kl. 18:00. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og annað sinn sem Súlan var afhent. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.

Sossa Björnsdóttir er fædd 9.febrúar árið 1954 og uppalin í Keflavík. Hún lærði myndlist í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám í listaháskóla í Kaupmannahöfn og lauk svo mastersgráðu við listaháskóla í Boston árið 1993. Hún hefur í áraraðir unnið við list sína og haldið sýningar víða um heim s.s. í Danmörku, Bandaríkjunum, Portúgal og Kína.

Sossa hefur lengi verið öflug í menningarlífi Reykjanesbæjar og leyft bæjarbúum að njóta með margvíslegum hætti. Hún hefur sýnt í Listasafni Reykjanesbæjar, bæði ein og með öðrum, hún hefur haldið sýningar á vinnustofu sinni tvisvar á hverju ári, á Ljósanótt og fyrir jólin og einnig tekið þátt í alls kyns menningaverkefnum í bæjarfélaginu m.a. tónleikaröðinni Heimatónleikar og List án landamæra.

Hún hefur kennt myndlist í skólum og á opinberum námskeiðum og tekið nemendur til sín á vinnustofuna og það oft án greiðslu. Hún hefur einnig tekið á móti fjölda hópa á vinnustofuna, sýnt verkin og sagt frá starfi sínu. Sossa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. var hún útnefnd sem Listamaður Reykjanesbæjar árið 1997 og hún fékk Fullbright styrk til að vinna við og kenna myndlist í Seattle árið 2013. Verk eftir hana má sjá í flestum opinberum byggingum og fjölda heimila í bæjarfélaginu.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhenti Sossu verðlaunin og sagði hann m.a.: „Sossa er fyrsta flokks listamaður sem Reykjanesbær getur verið stoltur af. Aldrei verður metið að fullu hve mikilvægt það er fyrir hvert bæjarfélag að hafa svona lifandi listamann innan sinna vébanda. Bæjarstjórn og menningarráð vilja þakka henni fyrir áralanga vinnu og stuðning við menningarlíf bæjarins og hlýtur hún Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2018.“

Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, sem nú var haldin í nítjánda sinn, þakkaður stuðningurinn. Fram kom í máli Kjartans Más að bæjarbúar sjálfir yrðu virkari í viðburðahaldinu með hverju árinu sem liði og þeirra framlag ásamt fjárhagslegum stuðningi gerði það að verkum að Ljósanótt væri í hópi helstu menningarhátíða landsins. Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár, bæði fjárhagslegir og þeir sem studdu við hátíðina með öðru móti, voru 95 og þeir stærstu voru Isavia, Landsbankinn, Lagardére, Toyota Reykjanesbær, Securitas, Nettó og Skólamatur og voru þeim öllum færðar bestu þakkir.

Hér má sjá listakonuna Sossu taka við Súlunni úr höndum Kjartans Más bæjarstjóra