Listasafn Reykjanesbæjar kynnir nýtt merki

Listasafn Reykjanesbæjar hefur tekið í notkun nýtt merki sem endurspeglar nánasta umhverfi safnsins og sérstöðu þess. Safnið leitaði til Kolofon hönnunarstofu, sem er í eigu Harðar Lárussonar grafísks hönnuðar, vegna reynslu þeirra af vinnu með listasöfnum. Nýja merkið dregur innblástur sinn frá klettum, sjó og fuglalífi , náttúruþáttum sem umlykja safnið og mynda sérstakan karakter staðarins.

Meginmarkmiðið með nýju merki var að skapa sterkt og auðþekkjanlegt sjónrænt auðkenni sem nýtist vel í ólíkum miðlum, hvort sem er á prentuðum efniviði, varningi eða í stafrænum birtingum. Þá var lögð áhersla á sveigjanleika í hönnuninni, þannig að hægt sé að aðlaga merkið að mismunandi sýningum og fagurfræði þeirra listamanna sem sýna í safninu hverju sinni.

Safnið þakkar Herði og starfsfólki Kolofon fyrir frábært samstarf og skýra framtíðarsýn.

Tækifæri til að sjá áhrifamikla sýningu

Í Listasafni Reykjanesbæjar stendur nú yfir einkasýningin Fortíðin var aldrei, hún aðeins er eftir Larissu Sansour, sem er jafnframt hennar fyrsta sýning á Íslandi. Larissa er palestínsk-danskur myndlistarmaður sem hefur hlotið lof á alþjóðavísu fyrir kvikmyndainnsetningar sem fjalla á ljóðrænan hátt um minni, sögu, vald og sjálfsmynd.

Verkin eru sett fram í vísindaskáldlegu samhengi og fjalla meðal annars um missi og pólitíska sjálfsmynd. Larissa hefur sýnt á virtum söfnum eins og MoMA og Tate Modern, og var fulltrúi Danmerkur á Feneyjatvíæringnum 2019.

Sýningin stendur til 17. ágúst og við hvetjum auðvitað öll til að koma og upplifa þetta áhrifaríka verk! 

Til hamingju með nýja merkið, Listasafn Reykjanesbæjar!