Listsýningin Við sjónarrönd opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar

Grafíklistamennirnir Elva Hreiðarsdóttir, Soffía Sæmundsdóttir og Phyllis Ewen.
Grafíklistamennirnir Elva Hreiðarsdóttir, Soffía Sæmundsdóttir og Phyllis Ewen.

„Við höfum ekki fast land undir fótum heldur er yfirborð jarðar á hreyfingu. Náttúrulegt umhverfi okkar er ekki stöðugt heldur í sífelldri mótun og undirorpið breytingum.“

Þetta er viðfangsefni sýningarinnar Við sjónarrönd, sem Listasafn Reykjanesbæjar opnar föstudaginn 11. nóvember nk. kl. 18.00.  Sýningin er unnin í samvinnu þeirra Elvu Hreiðarsdóttur, Phyllis Ewen frá Bandaríkjunum og Soffíu Sæmundsdóttur. Á sýningunni má sjá verk þeirra þriggja og einnig sameiginlegt sköpunarverk þeirra. Listakonurnar fjalla meðal annars um landslag og landmótun, umbreytingar, jarðhræringar og áhrif loftslagsbreytinga, í listrænni nálgun við viðfangsefni sem einnig hafa verið vísindamönnum hugleikin.  Reykjanesskaginn er eins og opin jarðfræðibók með ummerkjum eldsumbrota og jarðhræringa, land í mótun og á hreyfingu, umlukið opnu hafi sem teygir sig í vestur allt að ströndum Bandaríkjanna.

Samstarf listakvennanna hófst árið 2014 þegar Phyllis Ewen kom til Íslands vegna sýningar Boston Printmakers sem haldin var í sal íslenskrar Grafíkur. Í framhaldinu komu í ljós snertifletir sem þær hafa unnið með síðan og sýna afraksturinn á þessari sýningu. Phyllis hefur m.a. unnið verk úr ljósmyndum sem hún tók á Reykjanesi í heimsókn sinni fyrir tveimur árum.

Sýningin stendur til 15.janúar n.k. og er í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnhúsum og þar er opið alla daga frá kl. 12.00-17.00.