Ljósanótt aflýst

Árgangaganga
Árgangaganga

Menningar- og atvinnuráð lagði fram til bókunar á fundi sínum þann 12. ágúst síðastliðinn að Ljósanótt yrði aflýst í ár í ljósi þess óvissuástands sem ríkir vegna Covid-19. Yfirskrift Ljósanætur í ár var „Ljósanótt í höndum bæjarbúa“ þar sem til stóð að veita íbúum styrki til að standa fyrir smærri viðburðum víðs vegar um sveitarfélagið. Á fjórða tug umsókna barst og því ljóst að samstaða bæjarbúa er mikil. Menningar- og atvinnuráð telur þó nauðsynlegt að sveitarfélagið gangi á undan með góðu fordæmi og taki ábyrga afstöðu í ljósi stöðunnar. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur fundargerð Menningar- og atvinnuráðs til umræðu og afgreiðslu á fundi sínum þann 18. ágúst næstkomandi.

Bókun Menningar- og atvinnuráðs:
Menningar- og atvinnuráð tekur undir sjónarmið stýrihóps Ljósanætur og telur sýnt að ekki verði gerlegt að halda Ljósanótt dagana 2 -6. september n.k. í ljósi þeirra samkomutakmarkana sem nú eru í gildi auk 2 metra reglu. Ráðið telur mikilvægt að sveitarfélagið sýni ábyrgð og stuðli ekki að óþarfa samsöfnun fólks á óvissutímum. Ráðið leggur því til að hátíðinni 2020 verði aflýst.

Um leið lýsir ráðið mikilli ánægju með góð viðbrögð við yfirskrift hátíðarinnar „Ljósanótt í höndum bæjarbúa“ en á fjórða tug umsókna barst í sérstakan Ljósanætursjóð sem settur var á laggirnar til að gera íbúum kleift að standa að smærri viðburðum víða um bæinn. Ráðið leggur áherslu á að slíkur sjóður verði einnig opinn fyrir umsóknir á næsta ári svo íbúar geti með virkari hætti tekið þátt í að skapa hátíðina. Ráðið hvetur umsækjendur til að halda áfram að móta hugmyndir að fjölbreyttum viðburðum og koma sterk inn að ári. Ráðið mælist til þess að tekið verði tillit til þess í fjárhagsáætlun næsta árs og fjármagni sem ætlað var í Ljósanótt 2020 verði bætt við fyrirhugað fjármagn Ljósanætur 2021.