Ljósanótt fer vel af stað og mikil veisla framundan

Salka Sól og Björgin Ívar Baldursson skemmtu gestum á setningarathöfn í skrúðgarðinum í gær. Ljósmy…
Salka Sól og Björgin Ívar Baldursson skemmtu gestum á setningarathöfn í skrúðgarðinum í gær. Ljósmynd Víkurfréttir

Tuttugasta Ljósanóttin fór vel af stað. Fjölmargir bæjarbúar komu á setningarathöfn í skrúðgarðinum í gær, sungu inn Ljósanótt með sönghóp úr grunnskólunum og söngkonunni geðþekku Sölku Sól, hittu vini og þáðu pylsur sem boðið var upp á vegna afmælis hátíðarinnar.
Setningarathöfnin markar upphaf Ljósanætur ár hvert. Í kjölfarið hefjast fjöldi dagskrárliða um allan bæ. Listsýningar opna, verslanir lengja opnunartíma og fólk gerir sér glaðan dag fram eftir kvöldi.

Í gær frumsýndi Með blik í auga hópurinn tónlistarsýninguna „Manstu eftir Eydísi?“ fyrir fullum Stapa. Þar sveif andi Eighties áratugarins yfir vötnum og varð enginn svikinn af þeirri tónlistarveislu. Tvær sýningar verða í Stapa á sunnudag.

Listaveislan heldur áfram í dag með opnun fleiri sýninga og óvæntra stefnumóta, eins og listakonurnar Gunnuhildur Þórðardóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Sossa og Valgerður Guðlaugsdóttir lofa í Bíósal Duus Safnahúsa.
„Veruleikinn og vindingar hans“ heitir sýning á úrvalsgrafík frá Póllandi sem opnuð verður í listasal Duus Safnahúsa kl. 18:00 í dag. Sýningin er sérstaklega valin fyrir Listasafnið af Jan Fejkiel, forstöðumanni Fejkiel gallerísins í Kraká, en sú stofnun nýtur mikillar virðingar innan og utan Póllands fyrir vandaðar sýninga- og útgáfustarfsemi í þágu pólskrar grafíklistar. Þess ber að geta að af þeim fjórðungi íbúa Reykjanesbæjar af erlendum uppruna eru flestir frá Póllandi. Þeir taka sífellt meiri þátt í dagskrá Ljósnætur.

Á vef Ljósanætur má finna hátt í 60 skráða viðburði í dag. Sýningar, tívolí, söngstund, púttmót, leirbakarí, sælkerasinnep, hafsalt, sögur og ljóð, skotfimi, Sigga Kling og plastlaus lífsstíll, svo fátt sé nefnt. Þess bera að geta að Ljósanótt er plastlaus í ár.

Það verður enginn svikinn af dagskrá Ljósanætur og vonandi verða allir í stuði, svo vitnað sé í titil málverkasýningar Fríðu Rögnvalds.

Nánar um dagskrá er að finna á http://www.ljosanott.is

Frá sýningunni  „Manstu eftir Eydísi?“ í Stapa í gærkvöldi. Ljósmynd Víkurfréttir

Frá setningarahöfn í skrúðgarðinum í gær. Ljósanæturfáninn blaktir við hún. Ljósmynd Víkurfréttir