Ljósanótt haldin í 11. sinn 2. - 5. september

Frá setningu ljósanætur
Frá setningu ljósanætur

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin í 11. sinn dagana 2. - 5. september.

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar verður haldin dagana 2. - 5. september og verður formlega sett n.k. fimmtudag þegar grunnskólabörn bæjarins sleppa marglitum blöðrum til himins.
Dagskráin þessa hátíðardaga er fjölbreytt og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar. Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni og framboð menningarviðburða hefur aukist ár frá ári jafnt og gestafjöldi. Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hápunktur hátíðarinnar sé á laugardeginum.
Tónlistin leikur stórt hlutverk á Ljósanótt í rokkbænum Reykjanesbæ og má þar nefna rokktónleika í Rokkheimum Rúnars Júlíussonar, bílskúrstónleikaeldri kappa, tónleikasyrpu í Duushúsum og hátíðartónleika í Stapa. Tónleikar unga fólksins verða í Frumleikhúsinu á fimmtudagskvöldið og á föstudeginum koma fram Gilli gill og prófessorinn, Pascal Pinon, Breiðbandið, Elíza Newman, Retro Stefson og Raggi Bjarna og Bjartmar og Bergrisarnir. Hátíðarhöldin ná hámarki á laugardagskvöldið en þá leika Hjaltalín og Páll Óskar, Hjálmar og Mannakort og Ellen Kristjánsdóttir.

Boðið verður upp á kjötsúpu fyrir gesti og gangandi á föstudeginum og árgangagangan á laugardeginum er viðburður sem enginn vill missa af. Skemmtileg barnadagskrá verður á stóra sviðinu á laugardeginum auk þess sem boðið verður upp á ratleik í Duushúsum og Tilraunalandið ásamt hoppuköstulum og kassaklifri verður í skrúðgarðinum. Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og mun hún bjóða gestum hátíðarinnar upp á heitar lummur við smábátahöfnina í Gróf.

Fjöldi myndlistarmanna sýna verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna verða opnar. Einnig opna á Listasafni Reykjanesbæjar og í sýningarrýminu Suðsuðvestur áhugaverðar sýningar.

Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á ljosanott.is.