Ljósanótt í Reykjanesbæ - nálgast óðum !

Frá tónleikum á stóra sviðinu.
Frá tónleikum á stóra sviðinu.

 Hér á bæ er allt komið á fullt við undirbúning Ljósanæturhátíðarinnar sem haldin verður hátíðleg 1. – 4. september. Að venju verður mikið um dýrðir og eins og alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem bera uppi stóran hluta dagskrárinnar með fjölbreyttum uppákomum eins og myndlistarsýningum, tónleikum og ýmsu öðru.

Ekki verðum við svikin af tónlistarviðburðum þessarar hátíðar en á sviðinu munu koma fram margir af eftirsóttustu hljómsveitum landsins svo sem Valdimar, Helgi Björns og reiðmenn vindanna, Baggalútur, Friðrik Dór, Lifun, Blaz Roca, Magnús og Jóhann og margir fleiri. Á laugardag verður samfelld tónleikadagskrá í Duushúsum og  á sunnudag verða síðan haldnir glæsilegir hátíðartónleikar í Andrews Theater sem bera heitið Með blik í auga, þar sem skyggnst verður aftur til áranna 1950 – 1970 í flutningi frábærra tónlistarmanna af Suðurnesjum.

Myndlistarsýningar verða ótal margar víðs vegar um bæinn og opna þær langflestar á fimmtudagskvöld. Þá verður einmitt opnuð sýningin  Dúkka í Listasafni Reykjanesbæjar með nýjum verkum eftir Valgerði Guðlaugsdóttur myndlistarkonu úr Reykjanesbæ.

Nóg verður í boði fyrir börnin. Sprell leiktæki verða á sínum stað, Skessan býður í lummur, fjölskyldudagskrá verður á stóra sviðinu allan laugardaginn og töframaður verður með sýningu og heldur galdranámskeið.

Fastir liðir sem gera hátíðina einstaka gleymast ekki, árgangagangan, kjötsúpan, harmonikkuball og sagnakvöld að ógleymdri flugeldasýningunni sem er punkturinn yfir i-ið á hátíðarhöldum Ljósanætur.  Það eru því spennandi dagar í vændum.

Láttu sjá þig á Ljósanótt!