Ljósanótt nær hámarki í kvöld

Saman með ljós í hjarta - hátíðin heldur áfram með fjölbreyttri dagskrá

Hátíðarhöld Ljósanætur fóru fram með glæsibrag í gærkvöldi þegar tæpir 4.000 lítrar af kraftmikilli kjötsúpu frá Skólamat yljuðu gestum í blíðskaparveðri og góðri stemningu. Fjöldi gesta sótti glæsilega tónleika í hverfum bæjarins á vegum íbúa, og á skemmtistöðum var fjölbreytt dagskrá fram eftir kvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gekk allt að óskum og engin stór mál komu upp.

Góður dagur framundan

Framundan er viðburðaríkur dagur með leiðarstefinu Saman með ljós í hjarta. Árgangagangan hefst upp úr hádegi og sameinar kynslóðir bæjarins í litríkri skrúðgöngu. Víða um bæinn verða listsýningar og ókeypis barnadagskrá, auk þess sem gestir geta notið tónleika, tívolítækja, matarvagna og fylgst með akstri glæsikerra og bifhjóla og margs annars. Veðurspáin lofar góðu og því má búast við miklum fjölda gesta.

Ljósanótt nær hámarki sínu í kvöld með stórtónleikum á aðalsviði, áður en hátíðinni lýkur með glæsilegri flugeldasýningu og tendrun ljósanna á Berginu, sem hátíðin dregur nafn sitt af.