Ljósanótt sett í 17. sinn í sól og blíðu

Frá setningu Ljósanæturhátíðar 2016 við Myllubakkaskóla.
Frá setningu Ljósanæturhátíðar 2016 við Myllubakkaskóla.

Það skyggði ekkert á gleði við 17. setningarathöfn Ljósanætur í morgun. Veðrið lék við bæjarbúa, börn léku með risabolta sem vöktu lukku og stór ljósanæturfáni var dreginn að húni á hátíðarfánastönginni í skrúðgarðinum af fulltrúum allra grunnskólanna sex í bænum. Næstu fjóra daga verður húllumhæ um allan bæ.

Vel tókst til með þá dagskrárliði sem boðið var upp á í Reykjanesbæ í gær í aðdraganda Ljósanæturhátíðar. Í dag verða fjölmargar sýningar opnaðar, Álfabækur í Bókasafni Reykjanesbæjar kl. 17:00, fjórar sýningar í Duus Safnahúsum kl. 18:00 og hjá flestöllum sýnendum þessarar hátíðar síðdegis. Vert er að vekja athygli á opnun Dúkkusafns Helgu Ingólfsdóttur í Gróf í dag kl. 12:00, Dekkjakeppninni í Ungmennagarðinum, sem fjórir ungir íbúar hafa skipulagt, kl. 15:00 og Hjólbörutónleikum í Keflavíkurkirkju kl. 20:00 í kvöld.

Allir dagskrárliðir eru vel kynntir á vef Ljósanætur, www.ljosanott.is og í dag kom Ljósanæturbæklingur Víkurfrétta út með þeim dagskrárliðum sem skráðir voru á vefinn 20. ágúst sl. Einhverjir viðburðir hafa bæst við síðan og því vert að skoða vefinn vel áður en haldið er út í daginn.