Lumar þú á góðri hugmynd?

Nú er undirbúningur fyrir Ljósanótt 2023 kominn á fullt skrið. Reykjanesbær skapar hátíðinni umgjörð með föstum viðburðum en það eruð þið sem gerið hátíðina að því stórkostlega sem hún er. Allar sýningarnar, tónleikarnir og alls konar fjölbreyttar og skemmtilegar uppákomur sem spretta fram um allan bæ yfir Ljósanæturhelgina. Þetta er í ykkar höndum.

Reykjanesbær hvetur alla sína íbúa, félög og fyrirtæki til að setja sig í gírinn og huga að þátttöku í Ljósanótt 2023 sem fram fer 31. ágúst – 3. september. Nú er tækifærið til að hrinda skemmtilegu hugmyndunum ykkar í framkvæmd og leita að tækifærum til þess. Alltaf er hægt að taka samtalið við okkur hjá Reykjanesbæ með því að senda tölvupóst á ljosanott@reykjanesbaer.is Fullbúna viðburði skal skrá inn á ljosanott.is og þannig munu þeir birtast í dagskrá hátíðarinnar. Allar helstu upplýsingar um hátíðina er einnig að finna á Ljósanæturvefnum.

Reykjanesbær er enn í skýjunum eftir magnaða Ljósanótt 2022. Þar var allt með okkur í liði og allir tóku höndum saman um að skapa frábæra hátíð, bæði íbúar og gestir, skipuleggjendur viðburða, þjónustuaðilar, styrktaraðilar og meira að segja veðrið skartaði sínu allra fegursta. Aldrei hefur jafn margt verið saman komið á Ljósanótt og er talið að yfir 30 þúsund manns hafi verið á hátíðarsvæðinu þegar mest lét. 

Tökum höndum saman um að skapa stórkostlega Ljósanótt 2023!